141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér hefur farið fram mikil umræða um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Hún hefur að mínu mati verið töluvert heimóttarleg. Það er eins og menn horfi bara á naflann á sér og ímyndi sér að þar sé heimurinn allur. Nú er mjög mikill uppgangur í Kína, á Indlandi, í Brasilíu og víðar og því fylgir mjög mikil notkun á nýrri orku. Hvar skyldi sú orka vera fundin, frú forseti? Aðallega í brennslu jarðefna, kola sérstaklega. Það er talið að kolabirgðir jarðarinnar dugi til 100–200 ára, þvílíkt er magnið. Það er óskaplega miklu brennt af kolum. Við heyrum um slys í kolanámum í Kína, því miður, en það sýnir okkur að mikil virkni er í því að grafa upp kol og brenna þau til að framleiða rafmagn. Sama er að gerast í arabalöndunum. Þar er notað gas sem hingað til hefur verið brennt en er nú brennt til að framleiða rafmagn sem er í sjálfu sér ágætt en engu að síður myndast koldíoxíðmengun. Það er alveg gífurleg koldíoxíðmengun í heiminum. Svo stöndum við hér og ræðum um rammaáætlun, frú forseti, eins og við séum ein í heiminum og deilum um það hvort við ætlum að virkja í neðri hluta Þjórsár eða ekki.

Ég spurði eitt sinn þáverandi hæstv. umhverfisráðherra, Þórunni Sveinbjarnardóttur, hvað Kárahnjúkavirkjun sparaði mannkyninu mikla losun koltvísýrings miðað við að álið væri framleitt í Kína með rafmagni, sem væri framleitt með brennslu olíu eða kola, og hvað sá sparnaður væri stórt hlutfall af bílaumferð á Íslandi. Þetta var í þá daga, frú forseti, sem maður fékk svör þegar maður spurði. Ég fékk nefnilega það svar að miðað við þær forsendur að álið yrði framleitt í Kína og rafmagnið framleitt með brennslu kola, eins og er mjög algengt þar og mjög vaxandi, en mér skilst að oft séu opnuð ný álver þar, ég veit ekki hvort ég fer rétt með þegar ég segi að aðra hvora viku sé opnað nýtt álver í Kína, þetta er náttúrlega risastórt land, þá spari Kárahnjúkavirkjun mannkyninu sexfalda brennslu Íslendinga af bílaflota sínum — sexfalda brennslu. En við horfum bara á naflann á okkur og segjum: Þetta álver framleiðir koldíoxíð vegna þess að kolefnisskautin búa til mengun sem Ísland þarf að standa skil á — en minnumst ekki á að álver annars staðar í heiminum, hvar sem er í heiminum, nota líka kolefnisskaut og framleiða koldíoxíð en til viðbótar veldur rafmagnið alveg gífurlegri mengun þar sem það er framleitt með brennslu kola, olíu eða gass.

Frú forseti. Mér finnst að við verðum að líta á heildarmyndina. Það er ekki hægt að líta bara á Urriðafoss og segja: Þarna eru einhver laxaseiði sem geta drepist — eða eitthvað slíkt. Það er svo merkilegt að sennilega eru laxaseiðin þarna vegna þess að búið er að jafna rennslið í Þjórsá. Ef ofsinn sem var áður en allt rennslið var jafnað væri enn til staðar þá væru sennilega engin laxaseiði þarna. Nú þekki ég það ekki nákvæmlega en það merkilega er nefnilega að virkjanir hafa búið til lífríki eins og sést af Blöndu- og Kárahnjúkavirkjun og víðar þar sem Jökla er nú orðin laxveiðiá, a.m.k. suma daga ársins.

Mér finnst að við verðum að líta á heiminn í heild sinni. Við getum ekki horft bara á naflann á okkur og rifist um rammaáætlun. Ég hugsa að það sé ekki langt í að fram fari að koma kröfur frá erlendum náttúruverndarsamtökum um að Íslendingar nýti orku sína betur. Ég hef margbent á það í gegnum tíðina og það er ekkert nýtt, það er orðið áratugagamalt, að við þurfum hugsanlega að standa saman gegn því að þurfa að virkja miklu meira en við teljum hóflegt gagnvart náttúrunni og þá ættum við ekki að vera að rífast um það hvort við ætlum að virkja þetta eða hitt heldur þurfum við að standa saman í því að vernda Dettifoss og Gullfoss.