141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:56]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er vissulega áhugaverður vinkill en engu að síður nokkuð ógnvekjandi. Ég get alla vega fullyrt fyrir hönd okkar framsóknarmanna að við viljum ganga mjög varlega í að virkja hvað sem er, við viljum að það sé skynsamleg stefna hér innan lands og það séum við sem ráðum henni en ekki einhverjir erlendir auðhringir eða samtök, hvort sem þau kenna sig við umhverfisvernd eða aðra hagsmuni.

Það er staðreynd að einn vinkill á málinu er sá að við framleiðum mjög heilbrigða orku og það er orkuskortur í heiminum. Það er vatnsskortur í heiminum og við eigum gríðarlega mikið til af vatni. Það er reyndar mjög víða orðið rýmislaust, þ.e. landnauð, til matvælaframleiðslu. Það er líklegt að um þessa þrjá þætti verði barist á næstu árum og að næsta stríð meðal þeirra þjóða sem við höfum kallað siðaðar geti jafnvel sprottið af einmitt slíkum þáttum þar sem grunnsamfélaginu sé allt í einu ógnað, ef menn hafa ekki aðgang að nægilegri orku til þeirra þarfa sem nútímasamfélagið krefst. Þetta er vissulega áhugaverður vinkill. Ég held engu að síður að það sé skynsamlegt að við séum með rammaáætlun, hvort sem hv. þingmaður kallar það heimóttarlega stefnu eða ekki. Það vantar hins vegar þennan þátt inn í umræðuna hjá umhverfisverndarsinnum á Íslandi, sem ég hef aldrei skilið.

Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni sparnaðinn sem var umreiknaður yfir í bílaflota. Það er einn þáttur sem við gerum í dag með því að nýta eigin orku, raforku, til þess að henda út olíu- og dísilkötlum við bræðslur og (Forseti hringir.) fiskvinnslu á Austurlandi sem er ígildi um 20 þús. bíla. Lengra getum við auðvitað gengið. (Forseti hringir.) Það er ekki verið að virkja hér allt fyrir stóriðju, það er verið að virkja til margvíslegra þátta og til þess (Forseti hringir.) þarf þessi rammaáætlun auðvitað að innihalda einhverja virkjunarkosti. (Forseti hringir.) Það gerir hún ekki í dag.