141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er margbúinn að biðja um það í þessari umræðu að hæstv. umhverfisráðherra sitji umræðuna og svari svona spurningum. Hvernig ætlar hún að bregðast við kröfum erlendis frá um að við virkjum meira, frá umhverfisverndarsinnum sem horfa upp á að það sé verið að flytja í síauknum mæli gas til Evrópu eftir leiðslum frá Rússlandi, mörgum mismunandi leiðslum, gegnum Úkraínu, Pólland og Eystrasalt? Það er stöðugt verið að auka brennslu í Evrópusambandinu vegna þess að það þarf mikla orku og það er lítið til af hreinni orku í Evrópusambandinu og sama er víðast hvar í heiminum.

Ég hugsa að við verðum að hafa þennan vinkil inni í umræðunni þegar við ræðum um rammaáætlun. Það væri miklu betra, frú forseti, ef menn hefðu náð sátt um rammaáætlun og væru búnir að negla niður: Þetta ætlum við að virkja, þetta ætlum við að vernda og þetta, eins lítið og hægt er, setjum við í bið. Það væri miklu betra, þá stæðum við sterkar, þá gætum við sagt: Það er búið að negla þetta niður. Ég minni á það að jafnvel Niagara-fossarnir eru notaðir til raforkuframleiðslu, jafnvel þeir eru notaðir til raforkuframleiðslu á nóttinni. Menn ganga mjög langt í því að nýta orku víðast hvar.

Ég minni líka á það að umhverfisverndarsamtök hafa verið mjög óskammfeilin í því að beita litlar þjóðir kúgunum. Ég nefni selveiðar við Grænland sem dæmi þar sem menn beittu sterku afli sínu í fjölmiðlum og annars staðar til þess að kúga. Það getur vel verið að umhverfisráðherra Íslands þurfi að standa á móti slíkri kúgun eftir 10–15 ár þegar vandinn er orðinn sem mestur í Evrópusambandinu. Þá væri gott að komin væri ákveðin sátt um rammaáætlun á Íslandi.