141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:09]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér rammaáætlun ríkisstjórnarinnar. Við erum ekki að ræða rammaáætlun íslensku þjóðarinnar. Það hvarflar ósjálfrátt að manni tilgangsleysi hlutanna. Hver ætli sé tilgangurinn með því að við séum á lokastigi þess að setja fram rammaáætlun, ferli sem byrjaði fyrir 12, 13 árum? Það ferli tók gríðarlega mikinn tíma og mikla orku frá alls kyns sérfræðingum á hinum ýmsu sviðum sem settu fram vel rökstuddan lista yfir svæði sem við ættum að nýta, vernda eða setja í biðflokk, allt gert til að reyna að sætta ólík sjónarmið í þjóðfélaginu, sætta andstæð sjónarmið þeirra sem ekkert vilja gera og þeirra sem allt vilja gera.

Þessari miklu vinnu, vönduðu og merkilegu vinnu, lauk með því að skilað var lista yfir þessi orkuverkefni til stjórnvalda. Stjórnvöld báru ekki meiri virðingu fyrir þeirri vinnu en svo að pólitíkusar fóru með puttana í það að raða niður kostum. Það var ekki gert á Alþingi. Nei, tveir ráðherrar bitust um virkjunarkosti, friðunarkosti og kosti sem áttu að falla í biðflokk og öll sú vinna tók mið af pólitískum hagsmunum þessara tveggja einstaklinga. Það er því ekki nema von að manni verði hugsað til tilgangsleysis hlutanna.

Það lítur allt út fyrir að þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt í þinginu, hvort sem það verður fyrir áramót eða fyrir janúarlok. Það er ljóst að meiri hlutinn mun knýja hana í gegn í krafti atkvæða sinna á Alþingi og í nafni lýðræðis en ekki í nafni sátta. Ekki í nafni sátta eins og var lagt af stað með í þessa löngu ferð. Það er ekki nema von að mér verði hugsað til tilgangsleysis hlutanna.

Næsta vor þegar ný ríkisstjórn tekur við verður fyrsta verk hennar að breyta þessari rammaáætlun. Vonandi ber hún gæfu til þess að fara þá leið að leiða þetta allt saman í jörð með því að láta sérfræðinga klára þá vinnu sem hefur staðið yfir í um 13 ár þannig að hægt sé að mynda raunverulega sátt um málið.

Það er líka hugsanleg hætta á því að stjórnvöld sem taka við muni raða verkefnum út frá sínum hagsmunum. Þá verður mér aftur hugsað til tilgangsleysis hlutanna. Til hvers að standa í þessu öllu saman ef ekki á að reyna að ná fram sátt með þessari vinnu? Hver er tilgangurinn með því? Ég sé hann ekki og ég býst við að fæstir sem hugsa málið af einhverri dýpt sjái nokkurn tilgang með rammaáætlun sem ekki leiðir til sáttar í þjóðfélaginu.