141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:15]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans í umræðunni.

Varðandi það sem hann kom inn á lokaorðum sínum — að tilgangslaust væri að standa í þessu vegna þess að líklegt væri að ekki næðist nein sátt við meginþorra, við skulum segja þings og þjóðar með þessari þingsályktunartillögu, og er nærtækast að vísa til umræðna Alþýðusambands Íslands um það hvernig þeir líta svo á að ríkisstjórnin sé að fara með þetta mál, brjóti samkomulög og eyðileggi þær forsendur sem meðal annars áttu að tryggja kjarasamninga — þá er rétt að spyrja hv. þingmann hvernig hann mundi líta á það, færu kosningarnar þannig að hann kæmist í ríkisstjórn, ef þetta verður samþykkt svona, óbreytt, eins og það liggur fyrir. Hvort hér sé komið fordæmi fyrir því að hver ríkisstjórn leggi fram sína stefnu, sína rammaáætlun og allri hugmyndafræðinni, hinni 14 ára gömlu hugmyndafræði, í það minnsta, sé bara vikið til hliðar. Og sú hugmyndafræði um að reyna að ná sátt milli ólíkra afla sé horfin og menn leggi bara fram stefnu sína sem hentar hverri ríkisstjórn á hverjum tíma. Lítur hv. þingmaður á að það sé líkleg afleiðing þessa? Mundi hv. þingmaður, komist hann í aðstöðu eftir kosningar, leggja það til verandi þá í þeirri ríkisstjórn? Er þá ekki allnokkur skaði skeður nú þegar í raun og veru án þess þó að búið sé að samþykkja þetta? Og hvort hægt sé að grípa enn til varna fyrir hugmyndafræðina með því að fresta umræðunni um málið, setjast yfir það að nýju og reyna að ná víðtækari sátt en hér hefur (Forseti hringir.) náðst með þessari þingsályktunartillögu.