141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:30]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum kannski ekki að lesa sömu plöggin. Ég les það sem kom frá faghópunum, eins og þeir skiluðu þessu af sér. Ég gef ekkert sérstaklega mikið fyrir útskýringar í greinargerðinni með frumvarpinu. Þar eru hlutirnir togaðir og teygðir á þann veg að þeir þjóni þeim tilgangi að tveir einstaklingar geti „vílað og dílað“ um þetta, ef maður slettir hérna, út frá pólitískum forsendum. Þess vegna sagði ég að ég hefði haldið að því faglega ferli sem við höfum lýst hafi raunverulega lokið með þessari skýrslu hérna, niðurstöðum faghópanna. Það hefur ekki verið unnin fagleg vinna í framhaldi af því sem leiðir til hlutlægs mats á því hvernig kostirnir eigi að vera. Það er raunverulega það sem ég hef verið að reyna að segja. Ef ég mætti ráða mundu sérfræðingar taka við þeirri skýrslu og því mikla efni sem var unnið í tengslum við hana og meta það til þess að finna út nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk.

Það er algjörlega ljóst að tveir pólitískir ráðherrar geta ekki skipt þessu á milli sín þegar þeir togast á um hvað eigi að lenda í hvaða kjördæmi og hvernig hlutirnir eigi að vera. Það skapar enga sátt. Enda stöndum við hérna dag eftir dag og kvöld eftir kvöld vegna þess að við erum algjörlega ósammála þessu. Þetta er ósáttaferli (Forseti hringir.) sem hefur verið sett af stað eftir að skýrslunni var skilað.