141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

sveitarstjórnarlög.

515. mál
[20:29]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, með síðari breytingum, samþykktir um stjórn sveitarfélaga. Frá umhverfis- og samgöngunefnd.

1. gr. hljóðar svo:

Í stað dagsetningarinnar 1. janúar 2013 í ákvæði til bráðabirgða IV í lögunum kemur 30. júní 2013.

2. gr:

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Í greinargerð segir:

Í ákvæði til bráðabirgða IV í sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, segir að samþykktir um stjórn og fundarsköp sveitarfélaga skuli halda gildi sínu til 1. janúar 2013. Í 2. mgr. 9. gr. laganna segir að ráðuneytið skuli semja fyrirmynd að samþykkt um stjórn sveitarfélaga og fundarsköp sveitarstjórnar og birta í Stjórnartíðindum. Vinnu við gerð fyrirmyndarinnar var ekki lokið fyrr en í nóvember sl. og var hún birt 20. nóvember 2012 með auglýsingu nr. 976/2012.

Herra forseti. Í stuttu máli má einfaldlega segja að með því að framlengja tímafrestinn í ákvæði til bráðabirgða IV gefst sveitarstjórnum landsins nægur tími bæði til að gera og samþykkja nýjar samþykktir en í ljós hefur komið að mikil þörf er á því að framlengja þessa fresti.

Ég tel ekki þörf á að lengja mál mitt frekar hvað þetta mál varðar og ítreka að þetta er frá umhverfis- og samgöngunefnd allri án nokkurra fyrirvara.

(Forseti (SIJ): Vill hv. þingmaður að málinu verði vísað til nefndar að nýju eða einungis til 2. umr.?)

Forseti. Ég biðst afsökunar. Ég óska þess að málinu verði vísað til 2. umr.