141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

lyfjalög.

460. mál
[21:00]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lyfjalögum. Frumvarpið er samið í velferðarráðuneytinu í samvinnu við Lyfjastofnun, Matvælastofnun og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

Tilefni frumvarpsins er að veita ráðherra lagaheimild til að innleiða ákvæði tilskipunar ráðherraráðs Evrópusambandsins nr. 90/167, frá 26. mars 1990, um skilyrði sem hafa áhrif á blöndun, markaðssetningu og notkun lyfjablandaðs fóðurs fyrir dýr. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 133/2007 frá 26. október, og fékk Ísland aðlögunartíma til 1. nóvember 2011 til að innleiða ákvæði hennar.

Í tilskipun 90/167 er mælt fyrir um skilyrði fyrir blöndun, markaðssetningu og notkun lyfjablandaðs fóðurs. Lyfjablandað fóður er dýrafóður sem bætt hefur verið með lyfjum, t.d. sýklalyfjum og mótefnum, en sú aðferð að bæta lyfjum við dýrafóður getur verið hagnýt leið til að stjórna lyfjagjöf dýra. Markmið tilskipunarinnar er að vernda heilsu manna gegn hugsanlegri hættu vegna notkunar lyfjablandaðs fóðurs fyrir dýr sem nota á í framleiðslu á matvælum og tryggja jafnframt frjálst flæði lyfjablandaðs fóðurs innan Evrópusambandsins.

Helstu efnisatriði frumvarpsins eru að lagt er til að þeim aðilum sem framleiða eða flytja inn lyfjablandað fóður verði gert skylt að sækja um leyfi til Lyfjastofnunar og er gert ráð fyrir að stofnunin hafi lögbundið eftirlit með þeim. Í samræmi við ákvæði tilskipunar nr. 90/167 er nauðsynlegt að kveðið verði skýrt á um leyfisskyldu þeirra aðila sem framleiða og flytja inn lyfjablandað fóður. Eins og staðan er í dag hefur leyfisskyldan ekki áhrif á rekstur núverandi fóðurfyrirtækja þar sem slík starfsemi er ekki stunduð hérlendis en til þess getur komið í framtíðinni. Lagt er til að lögbundin verði heimild til að innheimta eftirlitsgjald af innflytjendum og framleiðendum lyfjablandaðs fóðurs til að standa straum af lögboðnu eftirliti Lyfjastofnunar með þessum aðilum. Þá er, eins og ég hef áður sagt, gert ráð fyrir að sett verði lagastoð fyrir innleiðingu á tilskipuninni og að efnisatriði hennar verði birt með reglugerð samhliða gildistöku laganna.

Hæstv. forseti. Ég hef í stuttu máli gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins sem breytingar þær sem hér eru lagðar til varða innleiðingu á tilskipun eins og áður sagði. Ég vil vekja athygli á að Eftirlitsstofnun EFTA ákvað í síðustu viku — það eru að verða tvær vikur síðan núna — að stefna Íslandi fyrir EFTA-dómstólinn þar sem Ísland hefur ekki innleitt þá tilskipun sem hér hefur verið fjallað um. Eftir að EFTA gaf út ráðgefandi álit síðastliðið sumar hefur ráðuneytið verið í reglulegu sambandi við fulltrúa þess og upplýst þá um gang mála, nú síðast í lok nóvember. Með hliðsjón af þeirri erfiðu stöðu sem Ísland er komið í er það von mín að frumvarpið hljóti afgreiðslu á þessu þingi.

Ég leyfi mér, hæstv. forseti, að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar og til 2. umr.