141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

starfsleyfi sorpbrennslu á Kirkjubæjarklaustri.

[10:32]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra. Við höfum verið að ræða rammaáætlun og möguleika ýmissa byggða, skoða þjóðhagslega hagkvæmni, samfélagslega þætti og annað. Ég hefði talið að til að mynda í tilfelli Hólmsárvirkjunar hinnar neðri í Skaftárhreppi hafi ráðherra brugðist frumkvæðisskyldu stjórnvalda með því að skoða ekki þau gögn sem þar lágu fyrir.

Sveitarfélagið hefur lagt ríka áherslu á það, menn töldu sig m.a. hafa gert samkomulag við umhverfisráðherra um að virkjanir færu inn á aðalskipulagið í tengslum við stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs.

En það eru fleiri þættir í lífi íbúa Skaftárhrepps og sveitarfélagsins sem háðir eru ákvörðunum hæstv. umhverfisráðherra og það eru þeir þættir sem ég ætla að ræða og spyrja hæstv. ráðherra út í í dag. Starfsleyfi sorpbrennslunnar á Kirkjubæjarklaustri rann út 12. desember síðastliðinn. Sorpbrennslan er lítil, brennir rusli úr þessu sveitarfélagi og var lokað vegna díoxínmengunar sem fjallað hefur verið um að hafi verið á öðrum svæðum.

Díoxínmengun í Skaftárhreppi vegna þessarar litlu sorpbrennslu á einu ári er ígildi áramótabrennunnar á Skaftárhreppi. Menn hafa boðist til að hætta við brennuna því að sorpbrennslan sem slík stendur undir kyndingu sundlaugarinnar. Nú hefur sveitarfélagið lokað sorpbrennslunni meðan það bíður ákvörðun ráðherra. Það hefur sótt um tveggja ára undanþágu frá tilskipuninni til að leita að bestu fáanlegri tækni í heiminum í þessum efnum.

Ég vil spyrja ráðherra þriggja spurninga: Getur ráðherra gefið yfirlýsingu þess efnis að starfsleyfið sé í gildi á meðan málið er til umfjöllunar hjá umhverfisstofnun og ráðherra? Hver er afstaða ráðherra til málsins almennt? (Forseti hringir.) Og að lokum: Hversu lengi ráðherra telur sig þurfa að hafa málið til umfjöllunar eftir að Umhverfisstofnun hefur skilað áliti sínu til ráðherra, sem mér skilst að verði á morgun?