141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

starfsleyfi sorpbrennslu á Kirkjubæjarklaustri.

[10:34]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt sem fram kemur í orðum hans að þarna er um að ræða sveitarfélag sem átt hefur í nokkrum erfiðleikum með rekstur sinn. Mér vitanlega er þar mikil ánægja með ákvörðun stjórnvalda um að ráðast í byggingu gestastofu fyrir Vatnajökulsþjóðgarð á vestursvæðinu. Það er það verkefni sem Sunnlendingar settu efst á dagskrá í Sóknaráætlun 20/20 til að efla þetta viðkvæma svæði, þannig að það er mikið fagnaðarefni.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um starfsleyfi sorpbrennslunnar. Þá er því til að svara, eins og fram kom í máli hans, að starfsleyfið rann út 12. desember og það var ekki á mínu valdi að framlengja það starfsleyfi sisvona þegar það rann út. Hins vegar fór sveitarfélagið þess á leit við mig að starfsleyfi yrði framlengt í ljósi þessara sérstöku aðstæðna og þess umfangs sem þarna er annars vegar. Sveitarfélagið kom að máli við mig um miðjan október og ég gerði þeim þá þeim grein fyrir því að um formlegt erindi þyrfti að vera að ræða sem barst ráðuneytinu 20. nóvember. Það var síðan sent til Umhverfisstofnunar til umsagnar og eins og kom fram í orðum hv. þingmanns á ég von á umsögninni um málið frá Umhverfisstofnun á morgun og vænti þess í ljósi eðlis máls að ég flýti afgreiðslu málsins eftir að öll gögn í því liggja fyrir.