141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

fjárveiting til löggæslumála.

[10:39]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í umræðum á þinginu í allt haust og raunar lengur hefur verið kallað mjög stíft eftir því að fjármagn væri tryggt til að löggæslan vítt og breitt um landið gæti staðið undir þeirri lágmarksþjónustu sem ætlast er til af henni. Nú er 3. umr. fjárlaga í sjónmáli og fram eru komnar tillögur frá meiri hluta fjárlaganefndar um auknar fjárveitingar til löggæslumála. Þar er þó eingöngu um að ræða brot af þeim upphæðum sem nefndar hafa verið í sambandi við þörfina fyrir auknar fjárveitingar. Talað er um 200 millj. kr. í sérstakan pott sem ráðherrann geti úthlutað til löggæsluembætta, en í umræðum fyrr í haust, m.a. við 2. umr. fjárlaga, var það mat þeirra úr meiri hlutanum sem tjáðu sig við umræðuna að vonir stæðu til þess að hægt væri að tryggja 300 millj. kr. til löggæslunnar. Ég og fleiri bentum á að það væri alls ekki nóg. Nær lagi væri að upphæðin væri einhvers staðar í kringum 500 millj. kr. sem þyrfti til að bæta lögreglunni þann skaða og það tap sem orðið hefði á undanförnum árum. Vandamálin eru okkur öllum kunn hjá embættunum úti um landið en ég dreg þó líka alltaf inn í umræðuna stöðu stærri löggæsluumdæmanna þar sem fækkun á mannafla hefur verið töluvert mikil á undanförnum árum.

Ég spyr hæstv. innanríkisráðherra: Telur hann að þær tillögur sem nú liggja fyrir af hálfu meiri hluta fjárlaganefndar séu fullnægjandi til að lögreglan geti staðið undir grundvallarhlutverki sínu á næsta ári?