141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

aðildarumsókn Íslands að ESB.

[10:45]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ekki eru bjartar horfur í Evrópusambandinu nú um stundir og dregnar hafa verið upp margar sviðsmyndir af því hvernig verja beri evruna og evrusamstarfið þrátt fyrir hrun á Grikklandi, Írlandi, Portúgal, Kýpur og Spáni. Það eru því miklar blikur á lofti sem leiðir til þess að Bretar eru farnir að íhuga það alvarlega að fara út úr Evrópusambandinu en þar á bæ tala menn um að það verði ekki heimsendir þótt Bretar gangi úr ESB.

Það eru vandræði í Króatíu vegna þess að Slóvenía stendur jafnvel frammi fyrir því að neita að samþykkja Króatíu sem ríki inn í Evrópusambandið, en eins og allir vita þurfa öll ríki Evrópusambandsins að samþykkja ný ríki til þess að þau geti gengið í sambandið. Króatía ætlar að ganga í ESB 1. júlí 2013.

Frakklandsforseti er harðorður í garð Breta og segir að þeir hafi ekkert val, þeir skuli vera í ESB til eilífðarnóns, sem sýnir það að gangi ríki í sambandið er engin leið aftur út. Þess vegna blæs ég á rök þeirra ESB-sinna sem tala um að gangi Íslendingar í sambandið geti þeir alltaf gengið út aftur. Þetta staðfestir að ríki Evrópusambandsins líta ekki svo á.

Í ljósi þessa langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra Steingrím J. Sigfússon, þar sem flokkur hans barðist mjög á móti ESB-aðild fyrir síðustu kosningar: Er að vænta einhverra ákvarðana varðandi ESB-umsóknina hér á landi? Kemur til greina að draga hana til baka eða hætta viðræðum fyrir alþingiskosningar sem fram fara í lok apríl á næsta ári? Hvernig er staðan, hæstv. ráðherra? Er einhverra breytinga að vænta, sérstaklega (Forseti hringir.) í ljósi þess hvernig þingmenn Vinstri grænna hafa talað nú í vetur?