141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

mat á virkjunum í Þjórsá.

[11:04]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Þá langar mig að ítreka eina spurningu sem ég fékk ekki svar við: Hvenær telur hæstv. ráðherra að niðurstaða liggi fyrir úr þeim rannsóknum er beina á sérstaklega að Þjórsá og varða að mínu mati nánast eingöngu Urriðafossvirkjun? Hvenær verður málið aftur komið inn í þingið varðandi þessa virkjunarkosti til ákvörðunartöku um hvort kostirnir eigi að falla í verndarflokk eða nýtingarflokk? Ég tel að það séu þó nokkur ár í það og að við horfum hér fram á frestun í nokkur ár. Í nefndaráliti kemur fram að verkefnisstjórn eigi að skila áfangaskýrslu til ráðherra 1. mars 2014. Þá á ráðherrann eftir að vinna úr þeim gögnum verði niðurstaðan skýr og þá á málið eftir að fara í gegnum þingið eftir væntanlega umsagnarferli.

Hvenær gerir ráðherrann ráð fyrir (Forseti hringir.) niðurstöðu um þessa mest rannsökuðu virkjunarkosti sem fyrir liggja? Mun það einhvern tímann (Forseti hringir.) birtast okkur frá ráðherra Vinstri grænna að það verði tillaga um að Þjórsá fari í nýtingu?