141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

mat á virkjunum í Þjórsá.

[11:05]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að samkvæmt þingsályktunartillögunni eins og hún liggur fyrir er gert ráð fyrir að verkefnisstjórnin leggi fyrir ráðherra nýja tillögu ekki síðar en 1. mars 2014. Það er jafnljóst að þær tillögur geta legið fyrir fyrr ef verkefnisstjórnin telur öll gögn liggja fyrir. Ég vænti þess að við hv. þingmaður deilum þeirri afstöðu að það sé mikilvægt að öll kurl séu komin til grafar áður en tillaga er gerð. Við höfum stundum talað um að náttúran eigi að njóta vafans en þá er kannski allra mikilvægast að vafa sé eytt eins og nokkurs er kostur.

Þarna þarf að eyða vafa að því er varðar fisk í neðri hluta Þjórsár og ég held að hv. þingmaður ætti vegna aðkomu sinnar að málinu á fyrri stigum að vera mér sammála um að það er mikilvægt í þessu efni að við förum ekki þvert á hagsmuni náttúrunnar. Við viljum að þessar upplýsingar liggi klárar fyrir áður en endanleg ákvörðun er tekin.