141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

svar við fyrirspurn.

[11:06]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað í tilefni þess að í dag eru nákvæmlega tveir mánuðir liðnir frá því að ég lagði fram fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra um setu seðlabankastjóra í stjórnum félaga í eigu Seðlabanka.

Það kom bréf frá ráðuneytinu þess efnis að það hefði tekið lengri tíma en menn hefðu reiknað með að svara þessari fyrirspurn. Það er nú nokkuð síðan þetta bréf barst og ég hef töluverðar áhyggjur ef umfang stjórnarsetu seðlabankastjóra er svo mikið að það hefur nú tekið tvo mánuði að taka saman þessar upplýsingar. Þetta eru tiltölulega einfaldar spurningar, frú forseti, sem ég er hérna með.

1. Í stjórnum hvaða félaga í eigu Seðlabanka Íslands situr seðlabankastjóri?

2. Hver er afstaða ráðherra til þessarar stjórnarsetu seðlabankastjóra?

3. Hvernig hefur ráðherra brugðist við þeirri afstöðu Ríkisendurskoðunar til stjórnarsetu seðlabankastjóra sem kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um fyrirgreiðslu ríkisins til fjármálafyrirtækja og stofnana eftir efnahagshrunið?

Þar gerði ríkisendurskoðandi athugasemd við þetta fyrirkomulag.

Þarna er óskað eftir skriflegu svari og ég fer fram á það við frú forseta að hún gangi eftir því (Forseti hringir.) að fá svör við þessari fyrirspurn því að það eru bara þrír þingfundadagar eftir fram að jólafríi.