141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:16]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það sem ég átta mig ekki alveg á í þessu máli er hvers vegna meiri hlutinn leggur þetta til og af hverju hæstv. ráðherra hefur ekki fengist til þess að svara því hvers vegna þetta er gert svona. Ég hefði talið eðlilegra miðað við röksemdafærslur meiri hlutans og álit hans að það væri meiri ástæða til að fara mun hægar og rík ástæða og málefnaleg rök til þess að færa akkúrat þessar virkjanir á háhitasvæðunum frekar í biðflokk. Það slær mig þannig.

Hv. þingmaður segir: Jú, jú, það er nýtt ákvæði í umhverfisrétti sem segir að það beri að fara varlega. Ég er alveg sammála hv. þingmanni í því að það ber að fara varlega, en þessum spurningum finnst mér ekki nægilega vel svarað um það af hverju hæstv. ráðherra leggur fram þessa niðurröðun.

Umsagnarferlið var sett í gang, sagði hæstv. ráðherra, til að taka mark á því. Þá velti ég fyrir mér hvort ekki hafi komið neinar jafnalvarlegar ábendingar eða athugasemdir við það að fara í allar þessar háhitavirkjanir eins og til dæmis komu gagnvart laxagengdinni í efri tveimur virkjununum í neðri hluta Þjórsár. Hverahlíðarvirkjun er í nýtingarflokki sem er undarlegt þegar við erum með vandamál uppi á borðinu gagnvart Hellisheiðarvirkjun sem við virðumst ekki vera búin að ná tökum á, eftir því sem ég best veit. Það hefur gríðarleg áhrif á náttúruna. Menn tala um mengun grunnvatns, mengun lofts og síðan jarðskjálftavirkni.

Ég hefði talið eðlilegra og farsælla fyrir alla að þessar virkjanir hefðu verið settar í biðflokk og við sagt sem svo: Þegar við erum búin að ná tökum á þessum vandamálum getum við frekar sett þær í nýtingarflokk ef við yfirleitt náum tökum á vandamálunum sem eru fyrir hendi.