141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:20]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég get alveg verið sammála hv. þingmanni um að menn eru komnir aðeins lengra en þeir voru fyrir nokkrum árum í því sem snýr að Urriðafossvirkjun. Menn vilja fara frekar hægar þar.

Ég ætla ekki að gera lítið úr forsendum fyrir því að setja tvær efri virkjanirnar, þ.e. Holta- og Hvammsvirkjun, í biðflokk út af varúðarsjónarmiðum en ég sat einmitt fund sem varamaður í atvinnuveganefnd þegar þar var farið yfir málið á vordögum og verð að segja fyrir mína parta að mér fannst rök Veiðimálastofnunar og þeirra sem mættu á þann fund ekki vigta minna, og heldur meira eins og hjá Veiðimálastofnun. Ég held því samt ekki fram að ég hafi rétt fyrir mér.

Við erum með gríðarlega miklar rannsóknir sem ná yfir um 40 ára tímabil um laxagengdina í Þjórsá. Ég verð alveg að viðurkenna að ef ég mætti velja og ráða — það er ekki þannig — mundi ég hlífa einmitt háhitavirkjununum og fara frekar í þessar tvær efri virkjanir í Þjórsá. Ef ég mætti ráða því einn en það eru 62 aðrir sem ráða því. Mér finnst mun sterkari rök í nefndaráliti meiri hlutans fyrir því að fara varlega þar. Þó að Orkuveita Reykjavíkur sé búin að setja þetta í biðflokk vegna einhverra ákveðinna aðstæðna finnst mér að það ætti bara að taka ákvörðun á þinginu um að setja Hverahlíðarvirkjun til hliðar á meðan við fyndum út úr vandamálunum þarna.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að ég er ekkert að gera lítið úr svæðunum fyrir norðan. Það sem ég nefndi hér, Krýsuvíkursvæðið og virkjanirnar þar, snýst um að þar er ekki byrjað að raska. Menn færu þá hægar þar meðan menn næðu tökum á þessum hlutum.

Mér finnst rök meiri hlutans í hv. umhverfis- og samgöngunefnd miklu sterkari, að fara mun hægar í háhitavirkjanirnar en í þessar tvær efri virkjanir í neðri hluta Þjórsár.