141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:32]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Mig langar að blanda mér aðeins í þessa umræðu sem er orðin alllöng um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Sú umræða hefur staðið yfir í allmarga klukkutíma. Reyndar fór hún líka fram á síðasta þingi þegar þessi mál voru til umfjöllunar eins og mönnum er í fersku minni.

Ég hef átt þess kost að fylgjast talsvert með umræðunni. Hún hefur aðallega einkennst af því að fulltrúar úr stjórnarandstöðuflokkunum tveimur, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, hafa haldið hér allmargar ræður um efni þessa máls. Þetta er stórt mál og gefur að sjálfsögðu tilefni til að um það sé rætt ítarlega og sjónarmiðum komið á framfæri.

Mín skoðun er sú að öll þau meginsjónarmið sem hv. þingmenn úr Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki hafa talið nauðsynlegt að koma á framfæri hafi komið fram í mörgum ræðum þeirra og hafi verið haldið ágætlega til haga af þeirra hálfu þótt ég sé ekki sammála öllu því sem þar kemur fram.

Þess vegna tel ég orðið tilefni til að fara að ljúka umræðu um þetta mikilvæga mál og taka til við afgreiðslu þess. Allmargar breytingartillögur liggja fyrir á málinu og þingið þarf að sjálfsögðu að taka afstöðu til þeirra eins og eðlilegt er.

Ég hef verið gagnrýninn á þann mikla tíma sem hefur farið í þetta mál og margt í málflutningi hv. þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks en einnig verið gagnrýninn á þau sjónarmið sem hafa komið fram á allra síðustu sólarhringum, m.a. frá forustu Alþýðusambands Íslands. Ég ætla engu að síður að reyna að halda mig við þau meginsjónarmið og þá megingagnrýni sem hefur komið fram á þessa þingsályktunartillögu og lýsa viðhorfum mínum til þeirra. Það er ekki víst að við verðum endilega sammála fyrir vikið um öll atriði málsins en mér finnst mikilvægt að halda nokkrum sjónarmiðum til haga.

Í fyrsta lagi vil ég rifja upp að rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða á sér mjög langan aðdraganda eins og reifað er í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Raunar má fara allt aftur til níunda áratugarins þegar fyrst eru viðraðar hugmyndir á hv. Alþingi af þáverandi þingmanni, Hjörleifi Guttormssyni, um áætlun af þessum toga. Síðan hefur það verið til umfjöllunar á Alþingi í mörg skipti en í raun eru lögin fyrst sett árið 2011, lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, og um þau lög varð almennt góð samstaða í þinginu. Ef ég man rétt voru þau samþykkt samhljóða og enginn greiddi atkvæði gegn þeim þannig að fulltrúar allra flokka stóðu að þeirri lagasetningu og þeirri umgjörð sem lögin veita um meðferð þessa máls.

Þar segir í 1. gr. um markmið laganna, með leyfi hæstv. forseta:

„Markmið laga þessara er að tryggja að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.“

Þetta er 1. gr. laganna um verndar- og orkunýtingaráætlun þar sem er að finna þessa markmiðssetningu. Þetta finnst mér mikilvægt að hafa hugfast og hafa í bakgrunni allrar þessarar umræðu, þetta heildstæða hagsmunamat sem á að liggja til grundvallar þessari verndar- og orkunýtingaráætlun. Það má sannarlega halda því fram að sú tillaga til þingsályktunar sem hér er til umfjöllunar byggi auðvitað á því sjónarmiði. Það þýðir að það kunna að vera alls konar sjónarmið uppi, bæði í þinginu og úti í samfélaginu, þar sem menn eru ekki á eitt sáttir um allt sem fram kemur í þessari tillögu. Það endurspeglast meðal annars í umsögnum sem um áætlunina hafa komið en einnig í ýmsum fyrirvörum sem birtast í nefndarálitum. Það er vegna þess að menn hafa að sjálfsögðu mismunandi afstöðu til einstakra kosta sem þarna koma fram en þeir eru byggðir á því heildarmati sem fram fór í undirbúningsvinnunni að gerð þessarar áætlunar þar sem margir komu að, bæði úr stjórnmálalífinu og einnig, getum við sagt, hagsmunageiranum, mati þeirra sem eru að nýta orkuna, þeirra sem eru talsmenn verndar í ríkari mæli, náttúruverndarsamtaka, alls konar fagaðila úr háskólasamfélaginu, fólks með sérstaka þekkingu á tilteknum þáttum o.s.frv. Ég tel að öll þessi umgjörð sé mjög mikilvæg og til fyrirmyndar. Það er mikilvægt að um hana ríki sátt og samstaða.

Vitaskuld er það þó þannig að þar með er ekki tryggt að allir séu sammála um öll efnisatriði tillögunnar. Það leiðir eiginlega af sjálfu sér að upp geta komið ólík viðhorf í ferlinu og ég segi fyrir mína parta að ég styð þessa tillögu eins og hún liggur hér fyrir en ég get líka tekið undir fjölmargt sem kemur fram í álitum sem fylgja þessu máli úr bæði umhverfis- og samgöngunefnd og atvinnuveganefnd, fyrirvara af ýmsum toga. Ég held að ég geti sagt eins og örugglega hver einn einstakur þingmaður að ef maður hefði sjálfur haldið um pennann við samningu þessara tillagna hefðu þær litið eitthvað öðruvísi út. Sérstaklega vil ég fyrir mína parta taka undir þau sjónarmið sem hafa komið fram í þessari umræðu og varða jarðvarmavirkjanirnar og varúðarorð sem lúta að þeim sérstaklega. Ég skil alveg þau sjónarmið sem hafa komið fram um að það hefði kannski verið tilefni til að setja eitthvað af þeim sem eru núna í orkunýtingarflokki í bið- eða verndarflokk og sérstaklega hafa menn í þessu efni vísað til Reykjanessins. Það kunna þó að vera fleiri svæði sem það ætti við um, eins og hefur komið fram í þessari umræðu, eins og meðal annars hv. þm. Mörður Árnason nefndi áðan í andsvörum.

Ég vil í þessu sambandi sérstaklega minna á það sem kemur fram í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar á bls. 16 þar sem segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn hvetur því til þess að ríki, sveitarfélög, orkufyrirtæki og náttúruverndarsamtök taki saman höndum um sérstaka rannsókn á Reykjanesskaga þar sem kannaðir verði möguleikar á orkunýtingu, áætlaðar þarfir útivistar og ferðamennsku, gerð grein fyrir verðmæti jarðminja og lagt mat á hugmyndir um náttúrusvæðin á skaganum sem eldfjallagarð sem tæki einnig til virkjunarsvæðanna, enda séu gerðar til þeirra sérstakar umhverfiskröfur. Eðlilegt væri að aðilar leituðu samstöðu um ákveðna vernd meðan fullnaðarrannsóknir fara fram á möguleikum svæðisins.“

Þetta viðhorf setur meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar fram í nefndaráliti sínu og ég tek undir það. Mér finnst það svara þeirri gagnrýni sem hér hefur komið fram á það af hverju þessir kostir eru ekki settir í biðflokk að minnsta kosti. Ég ítreka að ég tek undir viðhorf sem koma fram í sérstökum fyrirvörum sem fylgja þessu nefndaráliti, m.a. fyrirvara hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, formanns nefndarinnar.

Það hefur sérstaklega verið gagnrýnt að sex tilteknir kostir hafa verið fluttir úr orkunýtingarflokki yfir í biðflokk frá því sem verkefnisstjórnin lagði upp með. Um það hefur verið rætt og því svarað með vísan til þess að gert er ráð fyrir því í þessu ferli að tillagan fari í sérstakt umsagnarferli. Ég tel mikilvægt að það ferli sé virt og hafi einhverja þýðingu, þ.e. það getur komið til þess að sjónarmið sem koma fram í umsögnum séu tekin til greina og flutt þannig inn í þingsályktunartillöguna. Það hefur verið gert í þessu tilfelli.

Menn hafa gagnrýnt þetta og þau sjónarmið hafa komið fram í þessari umræðu að þar með sé verið að slátra nánast þúsundum starfa á næstu, ja, það má jafnvel skilja það svo að það sé á næstu missirum eða jafnvel fyrir næstu kosningar, vegna þessara ákvörðunar. Þetta finnst mér ekki málefnalegt innlegg í umræðuna vegna þess að auðvitað hefur engum dottið í hug — eða hvað? — að allir þeir kostir sem eru í orkunýtingarflokki verði nýttir bara einn, tveir og þrír, ef ekki fyrir næstu kosningar, þá að minnsta kosti á næsta kjörtímabili. Það er ekki þannig.

Þeir sem hafa haldið uppi málefnalegum málflutningi um þetta, ég vísa til dæmis í hv. þm. Sigurð Inga Jóhannsson sem hefur rætt þetta mál alloft hérna, hafa látið það koma fram að þrátt fyrir að ákveðnir og tilteknir kostir séu settir í orkunýtingarflokk þýði það ekki endilega að þeir verði nýttir, a.m.k. ekki einn, tveir og þrír. Að sjálfsögðu þarf að fara með fyrirhugaðar virkjanir sem eru í orkunýtingarflokki eftir öðrum lögum, svo sem um mat á umhverfisáhrifum og skipulagslögum. Þar fer í gang ákveðið samráðsferli og umsagnarferli. Þar geta komið upp sjónarmið sem verða til þess að menn þurfa hugsanlega að hverfa frá, hægja á eða breyta fyrirætlunum sínum varðandi nýtingu einstakra orkukosta. Hið sama á auðvitað við um jarðvarmavirkjanir sem eru í orkunýtingarflokki, eins og á Reykjanesskaga. Þær munu þurfa að fara í ferli áður en ákvarðanir eru teknar um nýtingu þeirra. Þær þurfa að fara í umsagnarferli, mat á umhverfisáhrifum, skipulagsáætlanir og annað þvílíkt.

Jafnvel þó að ég hefði sjálfur persónulega kosið að ýmsir þeirra kosta sem eru í orkunýtingarflokki væru settir í annan flokk geri ég mér fyllilega grein fyrir því að fram undan er langt ferli og ég geri mér líka grein fyrir því að þessi flokkun byggir á mjög víðtæku samráði. Þetta er niðurstaða úr því ferli öllu, bæði vinnu verkefnisstjórnarinnar og síðan umsagnarferlinu í kjölfarið. Ég tel að það séu meiri hagsmunir í húfi að samþykkja tillöguna eins og hún liggur fyrir en að samþykkja hana ekki og vera þá ekki með neina áætlun í gangi. Það teldi ég slæman kost og þess vegna er það afstaða mín að styðja þá tillögu sem hér liggur fyrir.

Jafnvel þótt þessir sex nafngreindu kostir hafi verið settir í biðflokk, til þess að mæta athugasemdum og láta fara fram frekari rannsóknir á tilteknum þáttum sem eru sérstaklega greindir í umsögnum og í tillögunni, tel ég það ekki eitt og sér tilefni til þess að segja að það sé allt í húfi, nú sé verið að eyðileggja vinnu verkefnisstjórnarinnar. Það er ekki sanngjarnt að halda því fram. Menn geta verið ósammála ákvörðuninni og sagt að þessir kostir hafi átt að vera í orkunýtingarflokki og fært fyrir því rök, ég ætla ekkert að gera lítið úr því, en það er ekki sanngjarnt að segja að vegna þess að þeir hafi verið fluttir yfir í biðflokk vegna athugasemda sem hafa komið fram og óska um að frekari rannsóknir fari fram á þeim sé tilefni til að segja að nú sé öllum stoðum kippt undan rammaáætluninni. Mér finnst það eiginlega ekki almennilega rökstutt og enn síður að segja að nú sé verið að taka einhvern tiltekinn fjölda atvinnutækifæra og skúbba þeim út af borðinu til langrar framtíðar. Mér finnst heldur ekki sanngjarnt að segja það.

Í umræðunni hafa heyrst þau sjónarmið að vegna þessarar ráðstöfunar sérstaklega, og eiginlega bara vegna þessarar ráðstöfunar, sé þetta plagg sett á til fárra mánaða fram að næstu kosningum. Það finnst mér frekar bera vott um að þeir sem halda þessu fram hafi kannski aldrei ætlað sér að gera mjög mikið með þessa áætlun hvort eð var og þarna sé komið einhvers konar skálkaskjól, eitthvert tilefni til þess að taka hana út af borði. Það finnst mér heldur ekki alveg málefnalegt, svona eins og ég horfi á málið, þannig að ég er gagnrýninn á þau viðbrögð. Ég tel þvert á móti að menn eigi að taka þetta eins og það er, hér kemur fram þessi tillaga, hún hefur farið í alla þessa vinnu, farið í lögbundið ferli. Það er verið að bregðast við því, það er verið að bregðast við umsögnum sem bárust. Á þessari tillögu voru gerðar nokkrar breytingar, ekki miklar í sjálfu sér. Þetta eru ekki mjög miklar breytingar í heildarsamhengi áætlunarinnar, eins og ég horfi á.

Hvað er verið að segja með þessu? Það er verið að segja að þessir tilteknu kostir þurfi að fara í frekari rannsóknir. Það er ekki endilega verið að segja að þeir komi aldrei til greina sem orkunýtingarkostir. Því er ekki haldið fram, það er verið að segja að það þurfi að rannsaka þá betur.

Hér hefur verið sagt að þessi beiðni um sérstakar rannsóknir í Þjórsá eigi fyrst og fremst við um neðstu virkjunina, Urriðafossvirkjunina, en síður um hina tvo kostina. Því sjónarmiði er til dæmis haldið fram í fyrirvara sem hv. þm. Kristján L. Möller lét koma fram í áliti sínu í atvinnuveganefnd. Það kann að vera sjónarmið en hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra gat þess áðan í svörum við óundirbúnum fyrirspurnum að það sjónarmið hefði orðið ofan á að horfa á þessar þrjár virkjanir sem eina heild á meðan rannsókn færi fram. Niðurstaðan af þeim rannsóknum getur hins vegar orðið sú að til dæmis ein þeirra yrði ekki reist en hinar yrðu það. Það er ekki hægt að útiloka það, en það verður þá að byggja á því mati og þeim rannsóknum sem fara fram og kallað er eftir hvað það varðar.

Það er heldur ekki hægt að útiloka að við endurskoðun á þessari áætlun, vegna þess að auðvitað mun hún sæta endurskoðun eins og lög gera ráð fyrir, lendi kostir sem í dag eru settir í orkunýtingarflokk í öðrum flokki, biðflokki eða þess vegna verndarflokki. Það er ekki hægt að útiloka slíkt og ekki heldur að við frekari endurskoðun fari menn yfir þá kosti sem eru settir í biðflokkinn — þeir eru í biðflokki af tilteknum ástæðum — og að einhverjir þeirra fari ýmist í nýtingarflokk eða verndarflokk.

Þetta tel ég eðlilegan gang málsins og eins og ég segi finnst mér ekki tilefni til upphrópana. Umræðan er orðin mjög löng og gagnrýnin sem hefur komið fram í henni er mikið til um ferlið, það hefur verið gagnrýnt að tillagan sé ekki óbreytt. Í sjálfu sér var ekki samin þingsályktunartillaga af hálfu verkefnisstjórnarinnar þannig að þegar menn segja að það hefði átt að leggja fram tillögu verkefnisstjórnarinnar óbreytta finnst mér að minnsta kosti ónákvæmt að orða það þannig. Verkefnisstjórnin samdi ekki þingsályktunartillögu. Hins vegar komu fram ákveðin sjónarmið í þeirri vinnu.

Þetta er gagnrýni númer eitt. Hin gagnrýnin er aðallega á það að þessir tilteknu sex kostir hafi verið settir í biðflokk. Eins og ég segi finnst mér ekki óeðlilegt að um þetta séu skiptar skoðanir, ólík sjónarmið séu uppi, alveg eins og ég er persónulega þeirrar skoðunar að ýmislegt sem er í nýtingarflokki á Reykjanesi hefði betur verið sett í biðflokk eða jafnvel verndarflokk. Það er ekkert tilefni til þess að vera með stór orð um að nú hafi grundvellinum verið kippt undan rammaáætlun. Það finnst mér vera allt of mikið sagt og sá grunur læðist að manni að það sé fyrst og fremst verið að búa sér til einhvers konar „platform“ til að gera þá jafnvel enn þá meira við þessa áætlun. Gagnrýnendur á þessa tillögu núna munu hafa einhvers konar átyllu til að rífa áætlunina frekar í sundur ef þeir fá til þess umboð eftir næstu kosningar.

Frú forseti. Þetta voru örfá sjónarmið sem ég vildi einfaldlega fá að koma inn í þessa umræðu. Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna hafa talað um það í þessari löngu umræðu að fáir þingmenn stjórnarflokkanna hefðu tjáð sig mikið um þetta mál. Það hefur verið haft á orði að það væri svolítið erfitt fyrir þá að komast inn í röðina því að mælendaskráin væri oft löng af hálfu stjórnarandstöðuþingmanna. Svo er hitt, að ef stjórnarþingmenn kæmu hér upp mundi það frekar lengja umræðuna ef eitthvað væri. Það er vandlifað í þessu en ég hef reynt að fara yfir meginsjónarmiðin sem ég vildi koma fram í þessari umræðu og svara þeirri gagnrýni sem hefur verið sett fram út frá mínum bæjardyrum. Ég skil alveg ólík sjónarmið en ég tel ekki tilefni til annars en að þessari umræðu fari að ljúka og það sé hægt að ganga til afgreiðslu á þessari mikilvægu þingsályktunartillögu.