141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:52]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er rétt sem kom fram í máli hans, við í stjórnarandstöðunni höfum kallað á það að þeir sem hyggjast styðja þessa þingsályktunartillögu í stjórnarmeirihlutanum rökstyðji mál sitt og reyni með rökstuðningi sínum að hrekja þann rökstuðning sem við höfum haft uppi um rammaáætlunina. Það gleður mig líka að ræða hans var mjög málefnaleg og yfirveguð og fól í sér allt annað en það sem var haft eftir þingmanninum í fréttum fjölmiðla nú um helgina þar sem hann átti að hafa lýst því yfir að hér væri mjög ómálefnaleg umræða, stjórnarandstaðan sýndi fávísi og fákunnáttu og ætti að skammast sín, að ég held.

Af því tilefni spyr ég hvort hv. þingmanni finnist nokkuð léttvægt að það skuli vera búið að taka út úr rammaáætluninni nánast allar vatnsaflsvirkjanir sem voru niðurstaða verkefnisstjórnarinnar. Hugmyndir hafa verið í mjög mörg ár í rannsóknum og undirbúningi og nokkuð meiri samstaða er um og almenn viðurkenning á að minna varhugaverðar afleiðingar séu af vatnsaflsvirkjunum en til dæmis jarðvarmavirkjunum sem við höfum haft vaxandi áhyggjur af á liðnum árum. Er ekki málefnalegt að ræða það?

Forusta ASÍ hefur sagt það sama og við í stjórnarandstöðunni þess efnis að rammaáætlun sé að einhverju leyti ónýt, sé orðin pólitískt plagg og búið að skjóta rótum undir að henni verði hreinlega breytt eftir næstu kosningar verði önnur niðurstaða eftir þær kosningar í hinu stjórnmálalega landslagi. Er ómálefnalegt að tala um það? Er það skálkaskjólið sem hv. þingmaður segir eða er ekki (Forseti hringir.) málefnalegt að ræða það núna og reyna þá að finna einhvern sameiginlegan (Forseti hringir.) flöt til þess að rammaáætlunin verði meira í anda þess sem ég held að við höfum flestöll talað um, (Forseti hringir.) sáttaplagg sem auðvitað verður þannig að (Forseti hringir.) …?