141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:59]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki verið í þeirri stöðu sem þingmaðurinn spyr um, að þurfa beinlínis að velja á milli. Ég hefði þá þurft að leggjast betur yfir það, en almennt er ég þeirrar skoðunar að varúðarsjónarmiðin eigi að hafa í hávegum og þess vegna finnst mér mikilvæg sú röksemd sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans um virkjunarkostina í neðri hluta Þjórsár. Þar er vísað í rökstuðning ráðherra og sagt einfaldlega að það sé byggt á þeim upplýsingum sem koma fram í skýrslu verkefnisstjórnarinnar þar sem er tilgreint, með leyfi forseta, að „Urriðafossvirkjun hefur áhrif á stærstu laxveiðistofna landsins með um 10% af náttúrulegri laxveiði á Íslandi. Um 95% aflans er veiddur í net“.

Þarna hafa þau sjónarmið verið uppi að vegna þessara ríku hagsmuna og vegna þess að ábendingar hafa komið fram um það í umsagnarferlinu að þetta þurfi að rannsaka frekar finnst mér á grundvelli varúðarsjónarmiðanna rétt að gera eins og lagt er til í þessari tillögu. (Forseti hringir.)