141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:00]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Hann segir að það eigi frekar að samþykkja þetta en hafa enga rammaáætlun og að það séu ríkir hagsmunir í að afgreiða rammaáætlunina eins og hún er lögð fram.

Sú gagnrýni kom frá aðilum vinnumarkaðarins og ekki síður ASÍ að ef við samþykkjum þessa rammaáætlun óbreytta sé fótunum kippt undan yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga frá 5. maí 2011. Þar segir að stjórnvöld skuldbindi sig til að vinna af einurð að því að leggja grunn að varanlegum hagvexti og velferð og örva hagvöxt með arðsömum og sjálfbærum fjárfestingum, fjárfestingar aukist í 20% af landsframleiðslu, stjórnvöld séu reiðubúin til samstarfs við samtök launafólks og atvinnurekenda og að stjórnvöld vilji greiða fyrir aukinni fjárfestingu á sem flestum sviðum, einkanlega þeim sem stuðla að auknum útflutningstekjum. Lögð er áhersla á fjárfestingar í virkjunum. „Þess er fastlega vænst að samningar takist fyrir lok þessa árs um í það minnsta tvö umtalsverð fjárfestingarverkefni sem ráðist verði í, þar af annað á Norðausturlandi, og að framkvæmdir við þau geti hafist þegar á næsta ári,“ segir í yfirlýsingunni.

Ekkert af þessu hefur gengið eftir og ASÍ gagnrýnir mjög, og reyndar aðilar vinnumarkaðarins, að með því að samþykkja rammaáætlun eins og hún liggur fyrir hérna sé verið að kippa fótunum undan þeim yfirlýstu fjárfestingaráformum sem eru í þessari yfirlýsingu með kjarasamningunum. Það má rökstyðja það með því að með ákvörðun um að fara með þessa vatnsaflsvirkjunarkosti í neðri hluta Þjórsár í biðflokk voru teknir út þeir einu valkostir í virkjunum sem eru raunhæfir til framkvæmda á næstu árum, fyrir utan það sem þegar er komið af stað. Rökin fyrir því að taka þessar virkjanir út byggjast, eins og hv. þingmaður nefndi, á gagnrýni á möguleg áhrif á laxastofna í Þjórsá. Veiðimálastofnun sagði (Forseti hringir.) í umsögn sinni og á ítrekuðum fundum nefndanna um þessi mál að þarna væri búið að gera allar þær rannsóknir (Forseti hringir.) til tuga ára sem hægt væri að gera og að lengra yrði ekki gengið á þeim vettvangi til að bregðast við (Forseti hringir.) til að reyna að tryggja laxagengd. Tilraunum væri lokið.