141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:03]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel fullmikið sagt í auglýsingu Alþýðusambandsins eins og forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa þegar greint frá og brugðist við. Sagt er að fótunum sé kippt undan yfirlýsingu en auðvitað hefur aldrei verið sagt í neinum yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar að þetta ferli eigi ekki að fara eftir umgjörð og þeim lögum og reglum sem um það gilda, þar með talið umsagnarferlinu. Það hefur aldrei verið skrifað undir neitt slíkt enda væri það ekki hægt. Þetta ferli hlýtur að verða að hafa sinn gang. Umsagnirnar geta leitt til þess að það verði einhverjar breytingar og það er það sem hefur gerst í þessu ferli. Orðið hafa breytingar á tillögunni á grundvelli athugasemda í umsagnarferlinu.

Ríkisstjórnin hefur að sjálfsögðu ekki skuldbundið sig til þess að víkja frá þeim meginreglum sem eiga að gilda. Hún gæti ekki gert það og mér finnst allt of mikið sagt þegar Alþýðusambandið lýsir þessu yfir í auglýsingu sem það hefur birt. Ég tel að forustumenn ríkisstjórnarinnar hafi nú þegar svarað þeim sjónarmiðum sem þar koma fram og hef litlu við það að bæta.