141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:04]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst hv. þm. Árni Þór Sigurðsson skauta dálítið billega frá þessu máli. Í yfirlýsingunni segir að stjórnvöld skuldbindi sig til að vinna af einurð að því að leggja grunn að varanlegum hagvexti og velferð og örva hagvöxt með arðsömum og sjálfbærum fjárfestingum, að fjárfestingar aukist úr 13% í 20% af landsframleiðslu og atvinnuleysi minnki. Það er alveg sama hverjir hafa fjallað um það hvernig ríkisstjórnin geti staðið við fyrirheit sín við þessa kjarasamninga, allir sérfræðingar benda á nýtingu orkuauðlinda landsins. Það er ekkert í pípunum sem getur komið í staðinn fyrir að efla þennan fjárfestingarkost. Sú fjárfestingaráætlun sem ríkisstjórnin lagði fram á vordögum og ítrekaði í haust mun engan veginn uppfylla þetta, getur aldrei nálgast það.

Hvaða sjónarmið hafði þá ríkisstjórnin? Til hvers horfði hún þegar hún skrifaði undir þessa yfirlýsingu ef hún var ekki að horfa til (Forseti hringir.) orkufreks iðnaðar? Hér segir að stjórnvöld vilji greiða fyrir aukinni fjárfestingu á sem flestum sviðum, einkanlega þeim sem stuðla að auknum útflutningstekjum. (Forseti hringir.) Lögð er áhersla á fjárfestingar í virkjunum og þess er fastlega vænst að samningar takist fyrir lok (Forseti hringir.) þessa árs um í það minnsta tvö umtalsverð fjárfestingarverkefni. (Forseti hringir.) Þetta er í orkukaflanum, (Forseti hringir.) hvað er þá í ...? Hvar annars staðar (Forseti hringir.) sá ríkisstjórnin ljósið?