141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:09]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er mjög feginn því að hv. þingmaður lýsi því yfir að það hafi að sjálfsögðu verið ætlun hennar, og væntanlega talar hún þá fyrir sinn flokk líka, að virða niðurstöður úr rammaáætlunarvinnunni. Þetta er ferli og það felur líka í sér, eins og ég horfi á það, umsagnarferlið sem er lögbundið og skrifað í lögin frá 2011 sem voru samþykkt hér samhljóða. Ég trúi því að þegar menn segja að það hafi átt að byggja á þessari vinnu allri hafi það líka átt að innihalda umsagnarferlið og það að komið gætu fram athugasemdir í því sem þyrfti að bregðast við eða menn teldu rök fyrir að bregðast við með tilteknum hætti.

Það tel ég að hafi verið gert í þessari vinnu og þess vegna slær það mig þannig þegar menn vilja ekki klára ferlið alveg til enda eða vilja bara segja stopp eftir einhvern tiltekinn verkhluta, sem að vísu er kannski langstærstur í öllu þessu ferli, eins og menn hafi ekki viljað klára þetta ferli til enda. Mér finnst menn vilja stoppa við það og ekki taka umsagnarferlið með í reikninginn eða að minnsta kosti ekki gera neinar breytingar á grundvelli umsagna. Þannig upplifi ég málið. Það kann að vera misskilningur af minni hálfu, en ég tel að það sé það sem hefur verið gert.

Það hefur verið farið í þetta umsagnarferli sem hluta af heildarumgjörðinni um meðferð þessara mála eins og Alþingi hefur gengið frá því í lögunum og á grundvelli þeirra umsagna hafa verið gerðar tilteknar breytingar. Menn geta verið sáttir eða ósáttir við þær eftir atvikum og haldið uppi gagnrýni á rökin fyrir því að taka tilteknar umsagnir til greina en ekki einhverjar aðrar. Gott og vel, það er það samtal sem á að eiga sér stað í þingsalnum að mínu viti þar sem menn tala fyrir sínum málstað og rökstyðja hann. Þar geta orðið árekstrar milli sjónarmiða (Forseti hringir.) en það er bara hluti af lýðræðinu.