141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:13]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef heyrt þau sjónarmið sem hv. þingmaður hefur hér uppi um virkjanirnar þrjár í Þjórsá og laxaröksemdirnar, að það hafi að minnsta kosti ekki átt við um þær allar, eins og ég hef skilið þessa umræðu. Það eru alveg rök í málinu en á móti koma hin rökin, að menn vilja horfa á þær heildstætt og koma til móts við athugasemdirnar með því að láta fara fram frekari rannsóknir á þessu.

Menn geta komið hér eins og hv. þm. Jón Gunnarsson og sagt að ekki þurfi að rannsaka málið frekar. Um það erum við einfaldlega ósammála og svo verður að halda því til haga að hér eru pólitísk álitamál á ferðinni og verða alltaf. Að sjálfsögðu verður pólitíkin að taka afstöðu til ýmissa þátta og í ferlinu sjálfu í verkefnisstjórn koma fram ýmis sjónarmið og hagsmunir. Þó að hagsmunirnir séu ekki flokkspólitískir eru þeir pólitískir í sjálfu sér þegar tekist er á um hagsmuni um orkunýtingu og vernd. Þeir hafa að sjálfsögðu endurspeglast í vinnu (Forseti hringir.) rammaáætlunar og verkefnisstjórnarinnar í ferlinu öllu.