141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:14]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Í umræðu um svokallaða rammaáætlun hefur margt komið fram og hún hefur staðið lengi. Ég hef tekið þátt í henni og notað minn fulla ræðutíma, 20 mínútur, til að gera grein fyrir þeim fyrirvara sem ég hafði þegar málið var tekið út úr umhverfis- og samgöngunefnd, fyrirvara sem var bókaður í umsögn atvinnuveganefndar til umhverfis- og samgöngunefndar vegna úttektar á þessu máli. Þar fór ég yfir stöðuna í þessu langa ferli og lýsti því hvernig ég sá alltaf fyrir mér afgreiðslu rammaáætlunar á hinu háa Alþingi. Ég sá fyrir mér að meðal 63 alþingismanna yrðum við búin að vinna nauðsynlega undirbúningsvinnu til að skapa þá mestu sátt sem hægt er að skapa á Alþingi um það tímamótaverk sem við erum að vinna, um það sem við erum búin að óska okkur í svo mörg ár að við ættum en hefur ekki tekist.

Þetta hefur verið deilumál. Ég minnist umræðunnar um uppbygginguna fyrir austan, um virkjunina á Kárahnjúkasvæðinu og uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Reyðarfirði sem endaði á Alþingi með þeirri atkvæðagreiðslu sem þar fór fram og þetta verkefni hefur verið byggt upp. Ég spyr bara hvernig ástandið væri til dæmis fyrir austan eða í þjóðfélaginu almennt ef þetta hefði ekki verið gert. Við Íslendingar þurfum eins og allir aðrir að nýta okkur þær auðlindir sem við höfum til að skapa atvinnu í landinu, til að skapa hagvöxt, útflutningstekjur o.s.frv. Við nýtum sjávarauðlindina en erum með skiptar skoðanir á því hvernig eigi að gera það. Göngum við of langt þegar við tökum einhverja fisktegund, eða of stutt? Minnumst þess að það eru skiptar skoðanir. Á Snæfellsnesi hafa menn alltaf verið þeirrar skoðunar að við veiðum allt of mikið af loðnu vegna þess að þeir vildu hafa meira af henni í Breiðafirðinum þar sem hún gæti hrygnt og drepist sem fæða fyrir þorskinn. Það er sjónarmið út af fyrir sig.

Alltaf þarf að fara gullna meðalveginn og þannig er það líka með orkuna. Þar þurfum við að finna lausn sem flestir eru sammála um. Ég held, virðulegi forseti, að það megi fullyrða að við munum aldrei ná fullkominni sátt um þessi atriði, en miklu meiri sátt en við sjáum á Alþingi í dag sem meðal annars er orsök fyrir þessari löngu umræðu. Eitthvað af þessu þurfum við að nýta og ég hika ekki við að halda því fram að við munum nýta ýmis falleg landsvæði þar sem hægt væri að virkja. Við munum nýta þau til að vernda og fyrir ferðaþjónustu, fyrir okkur til að njóta á þann hátt vegna þess að það er líka nýting.

Síðast en ekki síst er auðlind í fólkinu í landinu og það er vandamálið okkar í dag, allt of margir eru atvinnulausir. Ætli við séum ekki búin að borga 120–130 milljarða í atvinnuleysisbætur frá hruni? Það er ekki góð nýting.

Virðulegi forseti. Við þurfum meiri hagvöxt til að skapa hér störf og síðast en ekki síst vantar okkur útflutningstekjur. Við þurfum uppbyggingu á atvinnustarfsemi og við þurfum að nýta auðlindir okkar til að skapa útflutning og fá gjaldeyri inn í landið. Það er það sem okkur vantar hvað mest. Um leið minnkar atvinnuleysi og þá lækka þær upphæðir sem greiddar eru í atvinnuleysisbætur í landinu. Þær eru allt of háar, fyrir utan að atvinnuleysi er sennilega eitthvert mesta böl sem nokkur maður býr við. Það geta ábyggilega þeir dæmt um sem hafa verið atvinnulausir lengi og við þekkjum hvað það skilur eftir sig.

Rammaáætlun sem er hér til umræðu á að vera málamiðlun ólíkra sjónarmiða. Hún er það kannski en ekki nóg. Allir verða að gefa eitthvað eftir en enginn fær allt sitt. Þannig á það að vera og ég ítreka það sem var meginefnið í minni fyrri ræðu að mér finnst eins og okkur sé að mistakast. Við finnum hér að það er ekki sú sátt sem þarf og við erum þá ekki að vinna það tímamótaplagg sem við ætluðum að gera þegar lagt var upp í síðari áfanga, þ.e. eftir að Össur Skarphéðinsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir, þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra, settu þennan feril í gang árið 2007. Það er miður og það er það sem mér finnst allra verst við þetta.

Á þeim nokkru mínútum sem ég á eftir ætla ég að fara inn á það svæði sem ég þekki best, það sem er í mínu kjördæmi, þ.e. norðaustursvæðið. Það er eðlilegt vegna þess að þar erum við oftast og þar eru sveitarfélög, einstaklingar og fyrirtæki sem ræða við okkur um þá hluti. Ég hika ekki við að halda því fram að það sé mjög skrýtið hvernig menn töluðu áður fyrr. Sumt fólk talar enn eins og allt norðaustursvæðið ætti að fara í vernd og mér finnst það alveg með ólíkindum. Þar er feiknarleg orka sem er talin geta verið upp undir 700 megavött í hágildi, lægra í miðgildi og enn lægra í lággildi, segjum 500–600 megavött. Mér finnst það með ólíkindum þegar viðkomandi aðilar hafa jafnvel tekið þátt í hinni miklu orkuöflun í námunda við höfuðborgarsvæðið, þ.e. uppi á Hellisheiði, þar sem hluti af virkjuninni fór í umhverfismat en ekki hún öll, þar á meðal ekki stækkun.

Virðulegi forseti. Mér finnst stundum að menn líti ekki sömu augum á gullið, að það sé öðruvísi hér en hjá okkur úti á landi. Ég hika ekki við að halda því fram að sú uppbygging sem á sér nú stað og er fram undan á norðausturhorninu með borun og öflun orku þar, sem er svo hugsuð í uppbyggingu á fyrirtækjum á Bakka við Húsavík, feli í sér á því svæði samfellt hagvaxtar- og uppbyggingarskeið sem mun standa í 10–15 ár þegar við förum af stað. Ég segi „þegar við förum af stað“ gagnvart erlendum fjárfestum sem þarna vilja koma inn en ég segi að við séum komin af stað hvað það varðar að Landsvirkjun er farin að bora.

Landsvirkjun er farin að bora á Þeistareykjasvæðinu. Þær boranir ganga vel og lofa góðu. Þetta er sú orka, virðulegi forseti, sem við ætlum að nýta á þessu svæði líkt og gert er á Hellisheiðarsvæðinu til að selja hana þeim fyrirtækjum sem vilja byggja upp fyrirtækjarekstur, skapa útflutningstekjur, vinnu og almennan hagvöxt og hagsæld á þessu svæði. Það er alveg sama hvort ég er að tala um þýska fyrirtækið CPP, sem sennilega er komið hvað lengst, eða Thorsil sem er þar rétt á eftir, hvort tveggja kísilflögufyrirtæki. Svo er þar franskt fyrirtæki að skoða sem ég kann ekki almennilega að nefna.

Þessar framkvæmdir eru í raun og veru komnar í gang. Eins og ég sagði áðan er byrjað að bora, það er byrjað að afla orkunnar og innan skamms verður skrifað undir verksamning út af Vaðlaheiðargöngum. Þau hafa alltaf verið í mínum huga, virðulegi forseti, einn þáttur í þessari stóru og miklu atvinnuuppbyggingu sem er að fara af stað á norðaustursvæðinu. Ég hef verið á fundum með erlendum aðilum sem vilja byggja þarna og hafa talið það forsendu að losna við Víkurskarðið, ófærðina þar og hættuna af því. Vaðlaheiðargöng skipta þar miklu máli.

Þegar uppbyggingu á Bakka við Húsavík verður lokið, hvenær sem það verður, eftir 10, 15 eða 20 ár, og komin þar mjög fjölbreytt og mikil starfsemi er ég sannfærður um að þá tekur við annað samfellt hagvaxtarskeið, þ.e. olíuöflun á Drekasvæðinu og siglingar um norðurslóð. Hér erum við að nýta og njóta, við göngum hægt en við ætlum að nýta þessa orku til samfellds hagvaxtarskeiðs fyrir þetta svæði sem ég fagna mjög. Ég hika ekki við að halda (Forseti hringir.) að þetta landsvæði verði eitt mesta hagvaxtarsvæði Íslands næstu 10–30 árin.