141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:26]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar ég tala um að mér finnist að okkur sé að mistakast er það einfaldlega mat mitt út frá þeirri löngu umræðu sem hér á sér stað, umræðu þingmanna úr Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki sem maður hlustar aðallega á. Ef svo ólíklega fer að þeir komist til valda á næsta kjörtímabili hefur mér heyrst margir tala um að þá verði rammaáætlun rifin upp. Það finnst mér dæmi um að okkur sé að mistakast vegna þess að rammaáætlun átti að vera sátt ólíkra sjónarmiða, eins og ég sagði áðan, þar sem allir verða að gefa eitthvað eftir og ná sátt í fyrsta skipti.

Við erum búin að vera með þennan feril í upp undir 20 ár og erum ekki komin lengra en þetta. Því miður er þetta mín skoðun og ég hef frekar styrkst í henni ef eitthvað er við þá löngu og miklu umræðu sem hér hefur átt sér stað.