141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:29]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn spyr um það frumvarp sem sjálfstæðismenn hafa lagt fram. Ég tel það ekki nauðsynlegan þátt í að skapa þá meiri sátt sem þarf. Alls ekki. Það er hægt að gera það á þeim forsendum sem við erum með hér. Ég vil segja líka, vegna þess að það kann að koma fram á eftir um hinn faglega þátt, að hinn faglegi þáttur hefur verið unninn af verkefnisstjórninni og öllum þeim sérfræðingum sem þar hafa komið að. Þetta er löng og mikil vinna. Frábært starf hefur verið unnið undir forustu Svanfríðar Jónasdóttur, bæjarstýru í Dalvíkurbyggð, sem stýrði verkefnisstjórninni. Ég hef alltaf litið þannig á það að þegar gögn koma fram við vinnslu Alþingis séum við alþingismenn líka að taka faglega afstöðu. Við erum sífellt að taka faglega afstöðu.

Hvað varðar þá tillögu sem ég hef sagt að væri líklegri til mestrar sáttar hef ég styrkst í þeirri trú við það að hlusta hér og það er sú tillaga sem verkefnisstjórnin lagði fram áður en þessir sex kostir voru færðir úr nýtingarflokki í biðflokk. (Gripið fram í.)