141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Það getur vel verið að ég eigi köpuryrði hv. þingmanns skilið og biðst þá afsökunar á því, en það sem ég á við er að við setjum af stað ferli sem er faglegt en það byggist á pólitískum grunni, m.a. vegna þess að menn náðu sátt í þessum sal um aðferðina sem beita skyldi. Það er ekkert til í þessu ferli sem heitir hreinfaglegt og það er ekkert til sem heitir hreinpólitískt. Það er rakið í nefndaráliti meiri hlutans sem hv. þingmaður styður, eða studdi að minnsta kosti þegar hann fjallaði um það í atvinnuveganefnd, að í ferlinu eru sex verkþættir. Ef þetta á að vera röklegt samhengi verður hver verkþáttur að taka við af öðrum, byggja á og gleyma aldrei hinni faglegu undirstöðu þó að teknar séu breiðpólitískar ákvarðanir um hitt og þetta.

Þess vegna spyr ég: Hvar er feillinn, hvar varð þetta ferli ófaglegt og hvar telur hv. þingmaður að sveigt hafi verið af leið? Þessu verður hv. þingmaður að svara. Ef það var ekki í formannahópi Svanfríðar Jónasdóttur hlýtur það að hafa verið hjá ráðherrunum sem lögðu þetta fram (Forseti hringir.) og þá verður hv. þingmaður líka að svara hinu: Átti ekki að taka mark á þeim umsögnum sem fyrir var mælt um í lögunum sem hann (Forseti hringir.) samþykkti sjálfur og gekk frá sem formaður iðnaðarnefndar? (Forseti hringir.) Átti að taka mark á þeim og með hvaða hætti (Forseti hringir.) var þá vikið frá hinni (Forseti hringir.) faglegu undirstöðu í ferlinu? (Forseti hringir.) Þessu verður hv. þingmaður að svara.