141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:35]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og fyrir afskaplega skýran málflutning. Sá fyrirvari sem birtist okkur í nefndaráliti því sem meiri hlutinn skilaði af sér er mjög skýr. Það þarf að beita sig töluverðu átaki, tel ég, eins og hv. þm. Mörður Árnason gerir hér, til þess að snúa út úr orðum hv. þingmanns. Það er engu að síður rétt.

Mig langar að hrósa þingmanninum fyrir það sem hann talar um í fyrirvara sínum, um hversu mikið mörg náttúrusvæði eru vernduð. Það er leitun að þingmönnum sem hafa blandað sér í umræðuna til þess að fara yfir þann lista sem lendir í vernd og þá staðreynd hversu stór hluti íslensks hálendis lendir þar af þeirri ástæðu að friðlýsing er fyrir hendi í verndarskilmálum og er ekki á listanum.

Mér finnst mjög athyglivert að enginn þeirra sem telja sig náttúruverndarsinna hefur komið hingað til að ræða þetta og benda á það vegna þess að þetta er stórsigur fyrir þá sem hafa talað fyrir náttúruvernd hér í gegnum árin. (Forseti hringir.) Ég tel að þetta sé efni í heila ræðu en mig langaði bara að hrósa hv. þingmanni fyrir að minnast á þetta í fyrirvara sínum.