141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:42]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst um spurninguna hvort ekki hafi verið tekið nægjanlegt tillit til efnahagslegra áhrifa við þessa áætlun. Ég segi fyrir mitt leyti að rammaáætlun virkar langt fram í tímann og þó að ég hafi talað um virkjanir fyrir norðan ætla ég líka að segja að við förum ekki að búa til raforkuver bara til þess að gera það. Það verður að vera kaupandi. Sú tíð er liðin að við eigum orku á lager og í dag vantar hana ekki. Það er til dæmis talið að vegna bráðnunar jökla og annars slíks væri hægt að nýta í orkuverum landsins miklu meira en gert er í dag. Ég hef heyrt töluna 5–7 milljarða sem renna til sjávar sem væri hægt að fá sem tekjur ef það væru kaupendur að orkunni. Næg orka er til. Sem betur fer er vinna við Búðarhálsvirkjun í gangi en hvað seinni hlutann varðar kem ég inn á það í seinna andsvari. (Forseti hringir.)