141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:27]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni, lítil umræða hefur farið fram um það sem mér finnst vera yfirbragð þessarar tillögu, að það sé búið að gera nokkuð hátt undir höfði ýmsum verndarsjónarmiðum. Út af fyrir sig er það ágætt og umræðan um verndarflokkinn gæti til dæmis verið mjög áhugaverð. Ég hef einstaka sinnum minnst á Norðlingaöldu í því sambandi þar sem ég tel að um hana gildi sérkennileg rök. Hún virðist hafa vera flutt í verndarflokk vegna þess að hæstv. umhverfisráðherra lýsti því yfir að til stæði að stækka og friðlýsa svæðið, en síðan hefur í sjálfu sér ekki verið samstaða um það, a.m.k. ekki meðal heimaaðila. Þess vegna er sú forsenda mjög tvíræð, í það minnsta mjög umdeilanleg. Margir aðrir kostir sem eru settir í vernd held ég að séu óumdeildir.

Þó kom það fram hjá forsvarsmönnum Orkuveitu Reykjavíkur varðandi Bitru — ég vil taka það skýrt fram svo enginn fari að misskilja orð mín að ég er alveg sammála því að við eigum að forðast þær virkjanir sem eru nálægt byggð og hafa sýnt sig að geta valdið ónæði, jarðskjálftum eða mengun af völdum brennisteins — þeir bentu á að það væri kannski óþarfi og sýni næstu kynslóðum vantraust, að við treystum þeim ekki til að taka ákvörðun. Þetta er verulega raskaður kostur, búið að skilgreina nokkuð vel hversu mikil orka er þarna, en á næstu áratugum getur vel komið upp sú tækni að hægt sé að nýta orkuna af Bitrusvæðinu án þess að fara inn á svæðið með tilheyrandi röskun (Forseti hringir.) og óþægindum fyrir íbúa Hveragerðis. Ég vildi spyrja hv. þingmann hvort hún teldi að þessi sjónarmið hefðu kannski (Forseti hringir.) átt að koma meira upp á borðið og þá einmitt í tengslum við umræðu um verndarflokkinn.