141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:31]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sat í verkefnisstjórninni. Út af því eru tveir þættir sem ég vildi ræða við hv. þingmann, annars vegar um Norðlingaöldu og þá skoðanakönnun sem svo er kölluð í dag. Var öllum ljóst að það væri skoðanakönnun sem ekkert mark yrði tekið á eða var þetta á þeim tíma sem menn röðuðu þessum kostum hluti af því ferli sem verkefnisstjórnin taldi sig eiga að fara í og meta hverjir væru bestir, að hennar mati?

Á síðustu dögum hefur verið talað um að með því að við í stjórnarandstöðunni færum hér í málefnalega umræðu um rammaáætlunina værum við að seinka því að hún yrði afgreidd. Þetta er fimmti eða sjötti dagurinn en verkefnið hvíldi inni hjá ráðherranum í átta eða níu mánuði. Það er eitt sem ég hef ekki alveg áttað mig á og ber þess vegna vel í veiði að geta spurt hv. þingmann sem sat í verkefnisstjórninni. Mig minnir að við hefðum vænst þess að fá niðurstöður frá verkefnisstjórninni mun fyrr og ég spyr þá hvort það sé hreinlega rétt munað hjá þeim sem hér stendur að það hafi orðið seinkun á að skýrslunni hafi verið skilað til þingsins. Voru að mati þingmannsins einhverjar sérstakar ástæður fyrir því sem og því hversu löng hún varð? Urðu kannski innansleikjurnar lengri en menn ætluðu eins og gjarnan gerst við framkvæmdir?