141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:41]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni innleggið við þessa umræðu. Ég vil spyrja hv. þingmann að tvennu, annars vegar varðandi þann fund sem við sátum báðir á laugardaginn var með Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins og sameiginlegum fundi atvinnuveganefndar og umhverfis- og samgöngunefndar. Er hann sammála því mati mínu af niðurstöðu þess fundar að þar hefði kristallast munur í afstöðu manna, annars vegar okkar í stjórnarandstöðu, framsóknarþingmanna og sjálfstæðisþingmanna, og reyndar einstaka stjórnarþingmanna, sem væri samhljóða skoðun ASÍ og Samtaka atvinnulífsins og hins vegar þeirra sem aðhyllast þessa þingsályktunartillögu meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar þingsins, að það væri grundvallarmunur á því hvort menn teldu að horft hefði verið jafngilt til efnahagslegra, þjóðhagslegra og umhverfislegra sjónarmiða. Við hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir tókum umræðu í andsvörum og ég held að við höfum verið sammála um að einmitt með því hversu öflugur verndarflokkurinn væri hefði klárlega verið tekið mikið tillit til þess sjónarmiðs og margir kostir settir í verndarflokk.

Þess vegna var það aðalástæða fyrir auglýsingu og ákalli ASÍ-forustunnar fyrir helgina um að þingmenn almennt tækju þetta mál upp og horfðu á það með þeim hætti sem ég skildi, að horfa sem sagt jafnar til efnahagslegra, þjóðhagslega sem og umhverfislegra þátta. Þá hefðu þeir kostir sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni, (Forseti hringir.) þó nokkrir og hugsanlega allir, átt að vera áfram í orkunýtingarflokki í þingsályktunartillögunni.