141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:53]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Mörður Árnason tekur sér ævinlega eitthvað nýtt fyrir hendur. Nú er hv. þingmaður orðinn bókhaldari og heldur hér greinilega nákvæma skrá yfir það hvernig fram vindur í ræðum okkar einstakra þingmanna. Mér var til dæmis ekki alveg ljóst að ég væri að halda mína sjöundu ræðu, ég hafði ekki haldið sérstakt bókhald um það og vil þakka hv. þingmanni fyrir að vera hinn nákvæmi bókhaldari þingsins undir þessari umræðu. Kannski gæti hann litið á þetta almennt sem verðugt verkefni sitt í framtíðinni.

Að öðru leyti er ég ekki sammála hv. þingmanni þegar hann segir að ég hafi hvatt til þess að ráðherrarnir virtu ekki hið faglega starf verkefnishópsins og þeirra sem undirbjuggu drögin að þingsályktunartillögunni. Það er einmitt það sem ég hvatti til. Ég hef reynt að setja mig í hina sanngjörnu stöðu. Ég hef sagt sem svo: Við skulum bara láta liggja á milli hluta, a.m.k. til að geta haldið áfram umræðunni, hvort hæstv. ráðherrar hefðu staðið eðlilega að því að færa þessa sex umdeildu virkjunarkosti úr nýtingarflokki í biðflokk. Ég hef síðan sagt: Úr því að þeir komust að því með sínum efnislegu rökum, sem ég er ekki sammála, hefðu þeir með sama hætti átt að vega og meta önnur efnisleg rök á grundvelli umsagna sem höfðu borist, og voru yfirgnæfandi varðandi Hagavatnsvirkjun, og sömuleiðis að taka tillit til þess að ekki lágu fyrir nægjanleg gögn eða nýjustu gögn vegna Hólmsárvirkjunar.

Ég hef kynnt mér þessi sjónarmið Ólafs Arnalds og þeirra landgræðslumanna, líka Sveins Runólfssonar. Ég sat slíkan fund í atvinnuveganefnd, nokkuð langan fund þar sem við höfðum gott næði til að fara yfir þetta með þessum tveimur merku fræðimönnum og heiðursmönnum og einmitt sá fundur sannfærði mig mjög í þessum efnum.