141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:00]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og breytingartillögurnar sem hann hefur lagt fram. Reyndar er önnur samhljóða breytingartillagan frá hv. þingmönnum Jóni Gunnarssyni og Einari K. Guðfinnssyni sem varða tvær virkjanir í okkar góða kjördæmi, Suðurkjördæmi, annars vegar Hagavatnsvirkjun og hins vegar Hólmsárvirkjun neðri við Atley. Ég tek undir með þingmanninum að það væri fróðlegt — verst að bókhaldarinn sem er með yfirlit yfir ræðurnar er ekki í salnum — að vita hvort hv. þm. Oddný G. Harðardóttir hafi yfir höfuð tekið til máls í þessari umræðu. Ég hef alla vega ekki heyrt hana útskýra afstöðu sína til fimm virkjana í Suðurkjördæmi og af hverju þeim er raðað eins og kemur fram í tillögu þáverandi iðnaðarráðherra, umrædds hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur. Það eru virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár sem fóru úr nýtingu í bið og Hagavatns- og Hólmsárvirkjun neðri við Atley. Ef menn hefðu verið samkvæmir sjálfum sér og talað um upplýsingar sem vantaði eða hefðu borist þá er það, eins og kemur fram í greinargerð með breytingartillögunni, minnisblað frá iðnaðarráðuneytinu sjálfu sem kveður úr um að þessar tvær virkjanir, Hólmsárvirkjun og Hagavatnsvirkjun, eigi vel heima í nýtingarflokki.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hafi heyrt útskýringar hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur (Forseti hringir.) einhvern tíma í þessu ferli. Síðari spurning mín er (Forseti hringir.) hverja hann telji möguleikana á því að fá þessar (Forseti hringir.) breytingartillögur samþykktar, hvort hann hafi grennslast fyrir um hug þingmanna til þeirra.