141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:05]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í framhaldinu spyrja hvort nefndin hafi kallað eftir sambærilegum upplýsingum, hvort það hafi verið rætt í nefndinni eða hvort það hafi verið að koma upp núna. Ég tek undir með hv. þingmanni að það væri afar fróðlegt að sjá sambærilega röksemdafærslu. Mér finnst hreint ótrúlegt að starfandi iðnaðarráðherra á þeim tíma hafi ekki tjáð sig um það hvers vegna þeim skýru rökum og þeirri skýru niðurstöðu sem barst henni á sínum tíma hafi ekki verið sinnt. Ég kalla eftir því.

Frú forseti. Það er náttúrlega algerlega óásættanlegt að við séum hér, ég og hv. þingmaður, ein í salnum við þessa umræðu. Hún er búin að vera löng en það er margt búið að koma fram. Þetta er mjög mikilvæg umræða og það er algerlega ljóst að öll málsmeðferðin er þinginu og hæstv. ríkisstjórn til mikilla vansa. Það að sjá ráðherrabekkina auða, hvorki hæstv. umhverfisráðherra né hæstv. iðnaðarráðherra heiðra okkur með nærveru sinni, hvað þá nefndarmenn í umhverfis- og samgöngunefnd eða atvinnuveganefnd sem hefur líka fjallað mikið um þessi mál. Mér finnst ærið tilefni að kalla hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur til umræðunnar til að hún standi fyrir máli sínu og (Forseti hringir.) útskýri hvers vegna (Forseti hringir.) þessum málflutningi var ekki sinnt.