141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:07]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það mundi auðvitað hjálpa til við umræðuna ef ráðherrar væru viðstaddir og þeir þingmenn sem hafa tekið virkan þátt í að móta þessar tillögur. Það er líka alveg rétt að ekki hefur öllum spurningum verið svarað og sá ágreiningur sem enn er uppi um málið er þess eðlis að hugsanlega gætu hv. þingmenn, til mynda hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, varpað ljósi á ýmsa þætti málsins.

Kallað var eftir öllum minnisblöðum og á þeim sameiginlega fundi umhverfis- og samgöngunefndar og atvinnuveganefndar þar sem ég óskaði eftir nákvæmlega þessu minnisblaði fór framsögumaður málsins fram á að fá öll sambærileg minnisblöð frá umhverfisráðuneytinu. Ég held að það hafi síðan orðið úr að allar upplýsingar komu um umsagnirnar frá umhverfisráðuneytinu, en ég man ekki til þess að fleiri minnisblöð hafi borist af neinu tagi. Ég tel að það hafi verið miður þar sem nefndirnar reyndu að fjalla ítarlega um þetta.

Ég hef talað fyrir því allt frá því í vor, þegar fyrir lá að ráðherrarnir tveir töldu sig hafa getu og umboð til að meta það pólitískt hvað væru umsagnir að þeirra skapi og breyta niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar, að þá hlyti hið sama að gilda um níu manna þingnefnd, hvað þá 18 manna, þ.e. tvær þingnefndir, og þá þyrftum við auðvitað að fá aðgang að nákvæmlega sömu gögnum og öllum þeim upplýsingum sem ráðherrarnir tveir höfðu.

Varðandi stuðning við þær breytingartillögur sem hér hafa verið kynntar, þar sem ýmsir stjórnarþingmenn hafa lýst yfir stuðningi við einstaka virkjunarkosti sem hafa ýmist verið færðir í biðflokk eða ekki verið hreyft við þeim af hendi ráðherra þrátt fyrir að ítarleg (Forseti hringir.) gögn hafi legið fyrir, þá bind ég vonir við þær. Það skýrist (Forseti hringir.) vonandi við atkvæðagreiðsluna sem ég vona að verði sem (Forseti hringir.) fyrst.