141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:21]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var fróðlegt að heyra hv. þingmann ræða sameiginlegan fund atvinnuvega- og umhverfisnefndar með forsvarsmönnum ASÍ og hvernig þar hefur birst, eins og hefur reyndar ekki farið fram hjá neinum í fjölmiðlum, sá djúpstæði ágreiningur sem er á milli ríkisstjórnarinnar og ASÍ og fleiri, vegna svika og svikinna loforða og meðal annars vegna rammaáætlunarinnar.

Hv. þingmaður lýsti þeirri skoðun sinni, sem ég tek undir, að mikilvægt sé að klára málið í sátt því við höfum lýst því yfir og ég hef heyrt hv. þingmenn Framsóknarflokksins lýsa því yfir að þeir séu ekki bundnir frekar en við af þessari rammaáætlun verði hún samþykkt óbreytt eins og hún liggur fyrir núna.

Þingmaðurinn sagði að þetta þýddi að einungis væri verið að gera rammaáætlun til sex mánaða. Þessi rammaáætlun, ef hún verður samþykkt, þýðir algjört framkvæmdastopp og þingmaðurinn fór vel yfir það í ræðu sinni hversu alvarlegt það er. Við þurfum að fara í framkvæmdir til þess að geta hafið hagvaxtarskeið hér á ný. Ég hef hins vegar áhyggjur af því og við höfum rætt það í mínum þingflokki að þetta geti þýtt meira heldur en bara sex mánaða stopp. Hvernig viljum við að ferlið verði? Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvernig sér hann, segjum að Framsóknarflokkurinn komist til valda hér að loknum kosningum, hvernig sér þingmaðurinn ferlið sem færi af stað við að breyta þessari rammaáætlun? Mundi það gerast strax eins og hendi væri veifað eða (Forseti hringir.) væri hætta á að það gæti tekið fleiri mánuði, jafnvel ár (Forseti hringir.) að vinda ofan af þessu?