141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:23]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og hv. þingmaður kom inn á þá hefur sá gríðarlegi djúpstæði ágreiningur sem er á milli verkalýðsforustunnar í landinu og ríkisstjórnarinnar í heild sinni ekki farið fram hjá neinum sem fylgst hefur með fjölmiðlum. Það hefur raunar verið ótrúlegt að fylgjast með þeim málflutningi og því stríðsástandi sem ríkir á milli þeirra. Það er verulegt áhyggjuefni að málum sé svona háttað og að við séum að fara inn á þessa braut. Það er nokkuð ljóst að næstu mánuðir verða mjög erfiðir og það hlýtur líka að verða erfitt hjá aðilum vinnumarkaðarins og verkalýðsforustunni að ná einhverju samkomulagi þegar enginn getur rætt við forustumenn ríkisstjórnarinnar.

Þegar forustumenn ríkisstjórnarinnar geta ekki svarað svona stórum samtökum með yfir 110 þúsund félagsmenn öðru vísi en í æsingi og skætingi þá er það verulegt áhyggjuefni. Ég sagði að ég teldi verulega hættu á að þessi rammaáætlun væri einungis til sex mánaða vegna þess hvernig hefði verið lagt af stað í það ferli. Það liggur alveg ljóst fyrir að töluverð vinna verður að breyta niðurstöðunni eftir næstu alþingiskosningar. Komist Framsóknarflokkurinn til valda þá munum við leggja til að þessi vinna verði tekin upp með einhverjum hætti en það liggur alveg ljóst fyrir að það er ákveðnum vandkvæðum bundið. Það er ekki eitthvað sem mun gerast á einni nóttu, en það er gríðarlega mikilvægt í þessu máli að allra sjónarmiða sé gætt og að við reynum að ná um það breiðri sátt.

Því miður er það svo að sú niðurstaða sem liggur í loftinu er ekki til þess fallin að ná breiðri (Forseti hringir.) sátt milli ólíkra sjónarmiða.