141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil í upphafi benda hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni á að það er stundum rétt að fara varlega með orð. Hótanir hafa þann galla að stundum þarf maður að standa við þær án þess að vilja það. Það sem ég ætlaði hins vegar að spyrja hv. þingmann um í þessu andsvari um þann fund sem hann minntist á, hinn sameiginlega fund atvinnuveganefndar og umhverfis- og samgöngunefndar þar sem meðal annars kom Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. Ég átti þess ekki kost að sækja þann fund og var að vonast til að hann yrði haldinn eftir helgi þegar ég væri kominn á staðinn, en enginn er ómissandi. Mig langar að spyrja hv. þingmann að því, af því að hann var að segja okkur fréttir af þeim fundi, hvað það var sem forseti ASÍ sagði um rammaáætlun. Hv. þingmaður sagði að forusta Alþýðusambands Íslands hefði sakað ríkisstjórnina um einhvers konar svik í rammaáætlunarmálinu. Sagði Gylfi Arnbjörnsson frá þessu þannig að ríkisstjórn eða einhverjir ráðherrar hefðu lofað tiltekinni niðurstöðu rammaáætlunar og að það væru tilteknir virkjunarkostir eða landsvæði sem ættu að fara í orkunýtingarflokk? Var það svo?

Mér þykir það ólíklegt en ég var ekki á fundinum og veit ekki hvernig þetta bar til, ég var ekki viðstaddur viðræður fulltrúa ríkisstjórnarinnar og Gylfa Arnbjörnssonar á sínum tíma. Var það með einhverjum öðrum hætti? Sagði Gylfi frá því þannig að ákveðinn fjöldi megavatta ætti að fara í orkunýtingarflokk eða í hverju lágu svikin að sögn Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, á þessum fundi? Það væri fróðlegt að vita betur um það og þingmaðurinn hlýtur að geta upplýst okkur um það því að hann hefur sagt okkur mjög skilmerkilega frá þessum fundi nema það gætti örlítillar ónákvæmni í þeirri endursögn.