141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:30]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt, sá sem hér stendur fór aðeins yfir það hvernig þessi fundur fór fram. Mér þótti mjög miður og ég veit að hv. þingmanni þótti það líka miður að hann var ekki á fundinum því að hann hefur haldið uppi ákveðnum sjónarmiðum í þessu máli. Það hefði verið gaman ef hv. þingmaður hefði getað verið á fundinum en ég veit að eðlilegar ástæður lágu fyrir því að hann gat ekki sótt fundinn.

Forseti ASÍ fór vel yfir þetta mál og sína sýn á það. Hann talaði meðal annars um það, og sagði það reyndar í fjölmiðlum eftir fundinn líka, að mikilvægt væri að halda þeirri sátt sem lagt hefði verið upp með í þessu máli. Skoðun hans væri sú og skoðun ASÍ — ég bendi á að þetta er ekki einungis skoðun forseta ASÍ þó að látið hafi verið liggja að því, vegna þess að á bak við þá yfirlýsingu sem Alþýðusambandið birti voru formenn allra aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands sem telja nokkra tugi og eru allt í kringum landið. Þessi skoðun er því ekki einskorðuð við þennan eina mann.

Á þessum fundi kom meðal annars fram að með því að víkja frá faglegum niðurstöðum verkefnisstjórnar og beita ekki þeirri nálgun við röðunina sem ætlunin var í vinnu hennar væru menn að fara með pólitíkina inn í málið. Það var ekkert kveðið á um ákveðin megavött í þessu sambandi, en aðspurður sagði forseti ASÍ að allt sem fram kæmi í yfirlýsingu og auglýsingu Alþýðusambands Íslands og sneri m.a. að þessum liðum rammaáætlunarinnar, stæði af sinni hálfu og af hálfu Alþýðusambands Íslands þrátt fyrir yfirlýsingar forustumanna ríkisstjórnarinnar. (Forseti hringir.)