141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fram hefur komið í ræðum að hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra talaði einhvern tímann fyrir 1990, rétt fyrir jól eða í lok þings, að fella ætti fjárlögin. Þá var kominn minnir mig 28. desember eða nær áramótum þannig að áhyggjurnar virðast breytast eitthvað með aldrinum held ég hljóti að vera, eða eitthvað slíkt.

En um hvað er verið að semja? Af hverju þarf að klára rammaáætlunina núna fyrir jól? Ég hef ekki hugmynd um af hverju stjórnarmeirihlutinn eða ákveðnir einstaklingar innan meiri hlutans leggja svona mikla áherslu á að klára þetta núna. Ég leyfi mér að fullyrða að ekki er algjör einhugur um það innan þess hóps hvort ýta eigi öllum öðrum málum aftur fyrir eða fram af brúninni vegna þessa eina máls. Búið er að nefna það og viðra við fulltrúa meiri hlutans að fresta málinu til að koma öðrum málum að en það er ekki vilji þeirra að gera slíkt. Á meðan þarf þessi umræða að tæmast og það er náttúrlega það sem gerist á endanum að sjálfsögðu.

Ég held að engin sátt sé í boði um rammaáætlunina. Tekin hefur verið um það ákvörðun að breyta henni frá upphaflegri tillögu, það var gert í þágu pólitískra hagsmuna. Það er gert, að mínu viti, til að halda ríkisstjórninni saman og til þess að uppfylla ákveðin loforð, geri ég ráð fyrir. Við vitum það líka að annar stjórnarflokkurinn hefur haft það, minnir mig, á stefnuskrá sinni, gott ef það er ekki í landsfundarsamþykkt Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að friðanir á virkjunum í Þjórsá skuli ná fram að ganga, eða að þær skuli ekki vera nýttar. Ég held að verið sé að uppfylla það meðal annars. Þar af leiðandi er þetta orðin pólitísk rammaáætlun, þetta er rammaáætlun þeirra sem eru nú við stjórnvölinn, því miður. Ferlið sem búið er að taka mörg ár, 14, 15 ár eða þaðan af meira, er komið núna (Forseti hringir.) í mjög óheppilegan farveg.