141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:52]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hugmyndin var auðvitað sú að reyna að toga þá sem, hvað á að segja, mest vilja nýta auðlindir og þá sem vilja friða eða vernda sem mest af auðlindum, á einn stað þar sem væri sameiginlegur vettvangur þar sem allir væru búnir að gefa eitthvað eftir, þar sem menn væru búnir að sætta sig við að þessi hluti yrði nýttur, hinn hlutinn yrði verndaður og þar á milli væru kostir sem þyrfti að skoða og rannsaka betur.

Ég veit að margir voru búnir að sætta sig við það ferli, þar á meðal sá er hér stendur þrátt fyrir að komið hafi fram í ræðum hjá mér skoðanir á ákveðnum kostum en það er nú bara eins og það er. En maður var búinn að sætta sig við að málið færi í þetta ferli og þar með mundi það mögulega verða til þess að draumur manns yrði aldrei að veruleika. Ég segi því að það var óheppilegt að fara að breyta þessum kostum eins og þarna var gert, þ.e. að taka úr nýtingu og setja í bið kosti sem skoruðu — ég held að það orð hafi verið notað hér — mjög hátt hjá verkefnisstjórninni, voru mjög til þess bærir, hafa verið rannsakaðir mjög mikið, að fara fljótlega í framkvæmdaferli eða eru að minnsta kosti mjög ofarlega á listum yfir svæði sem hægt er að fara í, ég nefni til dæmis Þjórsá.

Ég tek hins vegar líka undir með þeim og er einn af þeim sem hafa ekki látið sannfærast um að fara í allar þær þrjár virkjanir. Ég held að Urriðafossvirkjun þurfi að bíða og verða jafnvel aldrei að veruleika, en menn þurfa í það minnsta að fara betur yfir það. En óheppilegt var að það skyldi vera gert, að mínu viti, með þeim hætti að því yrði handstýrt (Forseti hringir.) af hálfu pólitíkurinnar.