141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:03]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Fá orð hafa verið nefnd oftar í þessari umræðu en einmitt orðið sátt. En umræðan, bæði hér í þinginu og í þjóðfélaginu í heild, er eins langt frá sátt og hægt er. Ég spyr: Hvar er sáttin um þessa rammaáætlun? Hvar er sáttin? Ég spyr aftur: Hvar er þetta mál statt núna? Við ræðum hér mál sem á sér rætur í viðleitni til að mynda sátt um tiltekna aðferðafræði til að taka ákvörðun um það hvernig skipa ætti landsvæðum í nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Lengi framan af var þokkaleg sátt um þá vinnu sem fór fram á þessu sviði. Auðvitað má segja að auðveldara sé að gera slíkt á undirbúningsstiginu en þegar þarf að taka hinar endanlegu ákvarðanir en hins vegar er alveg ljóst að því miður erum við frekar langt frá því að ná sátt um niðurstöðu í þessum efnum.

Næðist sátt ef þessi rammaáætlun verður samþykkt eins og hún er? Eins og hún kemur frá þáverandi iðnaðarráðherra, Oddnýju Harðardóttur, og hæstv. umhverfisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, yrði sátt um það? Er sátt um það? Er sátt um þá niðurstöðu? Er það leiðin til sáttar að ljúka málinu með því að hér í þinginu verði atkvæðagreiðsla um málið eins og það er statt núna og meiri hluti atkvæða ráði úrslitum? Er deilunni þar með lokið? Nei, auðvitað ekki. Við þekkjum að enn eru fjöldamörg sjónarmið uppi og mikill ágreiningur um einstaka þætti. Ég bendi á að óánægjan með þessa niðurstöðu, eins og hún kemur frá þeim hæstv. ráðherrum sem ég nefndi hér áðan, er ekki bundin við okkur sem erum í stjórnarandstöðunni. Hún er ekki bundin við okkur sem töldum að fleiri kostir ættu að vera í nýtingarflokki og færri í biðflokki. Nei, langt í frá. Það er líka hörð andstaða úr öðrum áttum. Það er líka hörð andstaða innan ríkisstjórnarflokkanna við tillöguna á öðrum forsendum, andstaða sem meðal annars birtist í sérálitum einstakra nefndarmanna í umhverfis- og samgöngunefnd sem gert hafa alvarlegar athugasemdir, og sumir hverjir jafnvel breytingartillögur, varðandi jarðhitakostina sem eru í nýtingarflokki.

Við höfum líka heyrt sjónarmið hv. formanns atvinnuveganefndar, Kristjáns L. Möllers, sem ég veit að á sér ákveðna skoðanabræður innan ríkisstjórnarflokkanna, alla vega í Samfylkingunni, þar sem hann telur að einstakir virkjunarkostir ættu frekar að vera í nýtingarflokki en biðflokki og hefur fært fyrir því ágæt rök, bæði hér í þinginu og í umsögn til umhverfis- og samgöngunefndar.

Hv. formaður umhverfis- og samgöngunefndar, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, orðaði það þannig í viðtali í gær í útvarpi að það stefndi í stórslys ef rammaáætlun yrði samþykkt óbreytt. Hvaða merkingu eigum við að leggja í það? Hv. formaður umhverfis- og samgöngunefndar skrifar að vísu undir nefndarálit þar sem lagt er til að tillaga ráðherranna verði samþykkt óbreytt en hún gerir vissulega í fyrirvörum sínum grein fyrir sjónarmiðum sem ganga þó gegn þeirri niðurstöðu á margan hátt. En í viðtali í útvarpi í gær sagði hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir mjög skýrt að það stefndi í stórslys ef sú tillaga sem hér liggur fyrir yrði samþykkt óbreytt. Bendir það til þess að samþykkt þessarar tillögu feli í sér endi allra deilna um málefnið? Eða leiði til þess að sátt náist? Því miður er svo ekki.

Hæstv. forseti. Þess vegna lögðum við sjálfstæðismenn í umhverfis- og samgöngunefnd og raunar í atvinnuveganefnd líka áherslu á að farin yrði sú leið sem formaður Sjálfstæðisflokksins og þingflokkur sjálfstæðismanna lögðu til í haust, að málið yrði tekið úr þeim farvegi sem það er í nú og að þeim álitamálum sem eftir eru yrði kippt úr hinu pólitíska deiluumhverfi sem málið er í á þessari stundu, sett aftur til verkefnisstjórnar þannig að fagleg og málefnaleg skoðun fengist (Forseti hringir.) á þeim kostum sem mestum ágreiningi valda. Þannig, hæstv. forseti, gætum við hugsanlega náð mun meiri sátt um niðurstöðuna en nú stefnir í.