141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:11]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni að það voru mjög skýrar yfirlýsingar sem komu fram af hálfu talsmanna atvinnulífsins, bæði launþega og vinnuveitenda, á fundinum á laugardaginn.

Það er alveg skýrt að sú stefna sem ríkisstjórnarmeirihlutinn hér á þingi hefur tekið varðandi rammaáætlun er í fullkomnu ósamræmi við það sem þessi samtök, þessi heildarsamtök annars vegar launþega og hins vegar vinnuveitenda í landinu, gengu út frá þegar kjarasamningar voru gerðir á síðasta ári. Það er alveg ljóst að þeir líta svo á, þessir aðilar, að frekari hindranir sem verið er að setja í veg uppbyggingar á sviði orkunýtingar og orkuvinnslu á næstunni, með rammaáætlun í því formi sem hún nú er, eru í andstöðu við þær hugmyndir sem Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið gengu út frá þegar kjarasamningar voru gerðir.

Auðvitað hefur það, eins og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason vísaði til hér áðan, skaðleg áhrif þegar heildarkjarasamningar á vinnumarkaði koma til endurskoðunar á næsta ári. Þetta hjálpar ekki, þetta er eitt af fjölmörgum atriðum sem gerir að verkum að launþegahreyfingin í landinu, eins og reyndar fjöldamargir aðrir aðilar, telja sig svikna í samskiptum við þá ríkisstjórn sem nú situr. Eins og alltaf gerir ríkisstjórnin illt verra með viðbrögðum sínum þegar hún ber upp á menn ósannindi og lygi og hvaða orð það eru sem einstakir ráðherrar nota. Eða þegar hæstv. forsætisráðherra kemur og segir að Alþýðusamband Íslands sé ekki trúverðugt í umræðu um þessi mál. Ekki eru margir mánuðir síðan sami forsætisráðherra sagði að Samtök atvinnulífsins væru ekki trúverðug, væru ekki marktæk í umræðunni.

Þannig hefur nú verið talað um alla sem hafa leyft sér að gagnrýna þessa ríkisstjórn. Reynt er að slá þá út af borðinu með því að þeir séu bara ekki trúverðugir.