141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:16]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég mundi orða það þannig með almennum hætti að það hvernig ríkisstjórnin hefur meðhöndlað rammaáætlun verði ekki hjálplegt í því skyni að styrkja efnahagslegar undirstöður okkar á næstu missirum. Ég held að þær ákvarðanir sem ríkisstjórnin leggur til að verði teknar hér í þinginu, varðandi endanlega útgáfu rammaáætlunar, séu ekki til þess fallnar að renna stoðum undir þann hagvöxt sem allar spár gera ráð fyrir, meðal annars þær spár sem fjárlagafrumvarpið byggir á og langtímaáætlun í ríkisfjármálum.

Þannig mundi ég nú vilja svara hv. þingmanni hvað þetta varðar vegna þess að áhrif rammaáætlunar eru fyrst og fremst óbein á einstaka liði í ríkisfjármálum, hvort sem við erum að tala um laun einstakra hópa eða eitthvað annað. En það er hins vegar þannig að rammaáætlun sem fæli í sér aukna möguleika á því að ráðast í einhverjar virkjanir tiltölulega fljótt, miðað við það sem hægt er, miðað við þær forsendur sem liggja á borðinu, mundi renna stoðum undir hagvöxt á næstu missirum. Sú útgáfa rammaáætlunar sem liggur á borðinu felur í sér að harla lítið mun gerast í þessum efnum, það veikir hagvaxtarforsendurnar. Auðvitað byggist hugmyndafræði rammaáætlunar á því að hugsa til lengri tíma en þetta eru hins vegar staðreyndir sem ég held að við getum ekki horft fram hjá.

Langtímaáætlun í ríkisfjármálum, fjárlagagerð næsta árs, byggir á því að hér verði ekki stopp í öllum málum sem snúa að orkuvinnslu og orkunýtingu. (Forseti hringir.) En ef rammaáætlunin er lesin í samhengi getum við ekki dregið aðra ályktun en þá að sú útgáfa sem nú er á borðinu muni setja á stopp um (Forseti hringir.) nokkurra missira, jafnvel ára skeið.