141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:19]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég ætlaði nú reyndar að byrja á öðru en fyrst hv. þm. Birgir Ármannsson var í rauninni að tala um hvað rammaáætlunin snýst um þegar kemur að hugsanlegum virkjunum þá eru nú fleiri sammála einmitt því mati hv. þingmanns hvað það varðar, að á næstu árum verði lítið sem ekki neitt gert á sviði orku og virkjunarmála hvað snertir vatnsaflsvirkjanir. Ég vil meðal annars benda hv. þingmanni á ágætis grein frá fyrrverandi prófessor í virkjunarfræðum, Jónasi Elíassyni, þar sem hann fullyrðir hreint og klárt að rammaáætlun eins og hún liggur fyrir núna er rammaáætlun um að gera akkúrat ekki neitt. Ég kem kannski að því síðar í ræðu minni eða í öðrum ræðum sem ég mun flytja í þessu máli.

Ég vil byrja á því að hnykkja á því sem ég hef sagt í ræðum mínum og er lykillinn að því sem meðal annars við sjálfstæðismenn höfum verið að tala um og er þessi mikla sátt. Ég krefst þess að allt verði gert af hálfu forustumanna allra stjórnmálaflokka á þingi. Að menn virki þann raunverulega sáttafarveg sem hefur verið í gangi í 12–13 ár, m.a. í gegnum verkefnisstjórnun og ýmsa flokka sem komu að málinu, stjórnarflokka bæði núverandi og fyrrverandi hvort sem við erum að tala um Samfylkinguna, Framsóknarflokkinn, Sjálfstæðisflokkinn eða núna Vinstri græna í ríkisstjórn.

Við höfum sýnt það í þessu máli að hægt er að taka þau mál sem eru viðkvæm, snerta þjóðarsálina og hjörtu fólks í samfélaginu og hvernig við getum reynt að ná samspili og samvinnu á milli nýtingarsjónarmiða og verndarsjónarmiða.

Herra forseti. Við vitum náttúrlega að í þessu máli, eins sorglegt og það kann að hljóma, snýst sáttin ekki um að ná sátt á milli nýtingar- og verndarsjónarmiða og á milli stjórnmálaflokka. Sáttin sem þingmenn stjórnarflokkanna eru að reyna að draga fram hér snýst fyrst og fremst um sáttina á milli þeirra sjálfra. Hún snýst um sáttina á milli Vinstri grænna og Samfylkingar, ekki um neitt annað. Það er hinn bitri og hrái sannleikur og veruleiki.

Ég vil draga fram í þessu máli, svo að menn átti sig á því, hvernig tækifærin eru að renna okkur úr greipum hvað varðar að binda alla stjórnmálaflokka, ekki bara fram að kosningunum 27. apríl í vor, í þá veru að vinna eftir tillögum frá verkefnisstjórn. Við sjálfstæðismenn höfum lagt það fram og það hefur hlotið ágætishljómgrunn meðal margra. Líka meðal stjórnarþingmanna sem hafa sagt eitt og annað hér á göngum þingsins en koma síðan hingað, kannski eðli málsins samkvæmt, og fara ekki alla leið í sinni sannfæringu. Enda er margt sem hangir á spýtunni og við vitum að það er náttúrlega ríkisstjórnarsamstarf vinstri flokkanna, að það alla vega nái að hanga á horriminni fram að kosningum. Það er kjarninn í þessu máli, af hverju þetta blasir við svona, og að ekki verði farið í að beina málinu aftur til verkefnisstjórnarinnar eins og við sjálfstæðismenn höfum lagt til og fá það um leið í gegn að við skuldbindum okkur, sjálfstæðismenn, framsóknarmenn og allir stjórnmálaflokkar á þingi, til að fylgja eftir þeim tillögum sem þaðan koma.

Á það vilja vinstri menn ekki hlusta og þá sérstaklega ekki Vinstri grænir ásamt einhverjum nokkrum þingmönnum í Samfylkingunni. Menn vilja ekki hlusta á að það eigi að nýta tækifærið eins og það blasir við okkur núna til að ná fram skuldbindingu allra stjórnmálaflokka til þess að draga niður hvar verndarsvæðin eru, hvað fylgir þeim og hvað fylgir biðflokknum og nýtingarflokknum. Þetta er ekki ásættanlegt þegar verkefnisstjórnin hefur forgangsraðað skýrt svæðum sem eru hvað mest rannsökuð af öllum svæðum á landinu, hvort sem við tölum um hugsanlega Holta- eða Hvammsvirkjun og við höfum líka talað um að hægt sé að bíða með Urriðafossvirkjun ef menn kjósa svo. Verkefnisstjórnin kýs að beina því í þann farveg en hér er verið að glutra niður tækifærum til þess að ná raunverulegri sátt milli nýtingar- og verndarsjónarmiða í samfélaginu til bæði skemmri og lengri tíma.

Á það vilja vinstri flokkarnir ekki hlusta. Þeir vilja ekki einu sinni láta reyna á þetta sáttafyrirkomulag heldur vilja beina þeim málum inn á við bara til að láta þessa vinstri stjórn hanga saman fram að 27. apríl. (Forseti hringir.)