141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil benda hv. þingmönnum, og öðrum þeim sem á okkur hlýða, á að málið er núna á forræði þingsins en ekki ráðherranna og þótt þörf kunni að vera fyrir einstaka þingmenn að hafa ráðherrana viðstadda þegar þeir tala þá er rétt að beina spurningum til þeirra sem bera helst ábyrgð á málinu. Það geri ég sem framsögumaður meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar og ég skal svara að minnsta kosti einum þætti af því sem hv. þingmaður nefndi vegna þess að hv. þingmaður er kunnur fyrir að vera þokkalega, miðað við aðstæður, málefnalegur í ræðuhöldum sínum.

Spurningin var þessi: Voru það samantekin ráð formanna flokkanna eða einhverra slíkra að málið ætti að fara í gegnum tiltekna nefnd þingsins og ekkert skyldi hreyfast?

Ég segi bara eins og er, ég veit ekkert hver voru samantekin ráð formanna flokkanna. Ég fékk engin slík fyrirmæli eða beiðni eða neitt af því tagi og er þó einn af tveimur fulltrúum Samfylkingarinnar í hv. nefnd.

Ég lít svo á að hlutverk nefndarinnar og þingsins í þessu ferli, í sjötta verkþætti ferlisins sem nú stendur yfir allt frá faghópunum, sé að láta reyna á þau rök sem áður hafa komið fram, rök faghópanna, að svo miklu leyti sem við höfum þekkingu til þess, rök verkefnisstjórnarinnar og formannahópsins og að lokum rök ráðherranna fyrir þeim breytingum sem þeir gerðu eftir umsagnarferlið á sex kostum af 67, þremur virkjunum eða fimm og hálfri á tveimur svæðum. Ég lít svo á að okkar verkefni, þó að við getum fræðilega gert allt sem okkur sýnist en þá þurfum við heldur ekki rammaáætlunarferlið yfir höfuð, sé að láta reyna á þessi rök. Það gerðum við í umhverfis- og samgöngunefnd í samvinnu við atvinnuveganefnd og niðurstaða okkar í meiri hlutanum varð sú að þó að við gerðum ýmsar athugasemdir og margir hafi gert formlega fyrirvara og aðrir óformlega þá standist þessi rök. Það var vinnulagið í nefndinni (Forseti hringir.) og það er þess vegna sem við stöndum hér í meiri hluta nefndarinnar stolt eftir og styðjum þessa tillögu reistu höfði.