141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:59]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir andsvarið og eins fyrir þær upplýsingar sem komu fram. Ég sagði hér að þetta væri það eina sem mér dytti í hug en hélt því samt ekki fram. Ég þekki þá hv. þingmenn sem starfa í umhverfis- og samgöngunefnd af öðru en því að taka við einhverjum skipunum.

Það sem mér þykir merkilegt og kemur auðvitað fram er svar hæstv. ráðherra hér í dag í óundirbúnum fyrirspurnum þegar ráðherrann sagði: Þetta umsagnarferli hjá okkur, ráðherrunum tveimur — sem sagt þetta tólf vikna ferli — var sett fram til þess að taka mark á því.

Nú langar mig að spyrja hv. þingmann, því að maður hefur heyrt ákveðnar efasemdir hjá sumum hv. þingmönnum í umhverfis- og samgöngunefnd, hvort ekki hafi komið svipuð rök sem snúa að háhitavirkjununum. Það vekur reyndar dálitla furðu mína að þær skuli allar vera í nýtingarflokki. Þá hlýtur hin augljósa spurning að vera: Komu ekki fram ábendingar akkúrat gagnvart þeim hluta af virkjunarkostunum? Við getum tekið Hverahlíðarvirkjanir eða virkjanirnar á Reykjanesskaga sem snúa að Krýsuvíkursvæðinu sem dæmi, án þess að ég sé neitt að gera meira eða minna úr einhverjum öðrum kostum. Ég ætla nú ekki að orða það þannig að ekki hafi verið tekið mark á athugasemdum sem komu en einhvern veginn slá varnaðarorðin í meirihlutaálitinu mig þannig þar sem annars vegar er fjallað um vatnsaflsvirkjanirnar, þá er ég fyrst og fremst að tala um þessar tvær, Holtavirkjun og Hvammsvirkjun, og hins vegar virkjanirnar á háhitasvæðinu. Er hv. þingmaður tilbúinn að svara því núna í þessum orðaskiptum okkar hvort þær athugasemdir hafi verið veigaminni að því leyti að ekki þyrfti að taka tillit til þeirra og færa þessar virkjanir í biðflokk miðað við þau göng sem koma frá hæstv. umhverfisráðherra?